23. febrúar 2011. Rannveig Thoroddsen og Guðmundur Guðjónsson. Gróður við Urriðavatn

23. febrúar 2011. Rannveig Thoroddsen og Guðmundur Guðjónsson. Gróður við Urriðavatn

Rannveig Thoroddsen, líffræðingur, og Guðmundur Guðjónsson, landfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytja erindið „Gróður við Urriðavatn“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn, 23. febrúar kl 15:15.

Gróðurrannsóknir á afmörkuðu svæði við Urriðavatn voru unnar af Náttúrufræðistofnun Íslands að beiðni umhverfisnefndar Garðabæjar sumarið 2008. Rannsóknin fólst í gerð gróðurkorts og úttekt á háplöntum.

Urriðavatn og nánasta umhverfi er á Náttúruminjaskrá og nýtur bæjarverndar samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar. Vatnið liggur milli Setbergsholts og Urriðaholts og er um 13 ha að stærð. Í vatnið fellur Oddsmýrarlækur að sunnan, en útfall vatnsins er í Stórakrókslæk.  Austan við vatnið er eyði­býlið Urriðakot með leifum gamalla túna. Sunnan við vatnið er allstórt votlendi. Á Hrauntanga við norðan­vert vatnið er mólendisgróður og kjarr.

Rannsóknasvæðið sem er um 57 ha að flatarmáli er almennt mjög vel gróið. Holtin upp af svæðinu eru minna gróin en þar hefur verið sáð alaskalúpínu sem breiðist hratt út. Lítt eða ógróið land með gróðurþekju <10% var aðeins um 1% af kortlögðu svæði ef vatn er frátalið. Fjölbreytt gróðurfar rannsóknasvæðisins einkennist af samspili votlendis, mólendis, graslendis og ræktaðs lands.

Alls fundust 131 villt háplöntutegund auk ættkvísla túnfífla og undafífla og þar af teljast þrjár háplöntu­tegundir sjaldgæfar á landsvísu. Margar fleiri plöntutegundir hafa verulegt náttúruverndargildi á svæði­svísu þar sem þær eru undirstaða fjölbreytileika gróðurfars á svæðinu og auka á vægi þess til náttúru­skoðunar og fræðslu.

Friðlandið við Urriðavatn hefur margþætt gildi. Það er eitt af úti­vistar­svæðum á Innnesjum (höfuðborgar­svæðið). Það er vel gróið, gróskumikið með fjölbreyttu gróðurfari þar sem votlendi skipar háan sess. Vot­lendið við Urriðavatn og lindirnar í Dýjamýri eru ein af megin­undirstöðum lífríkis í vatninu. Nánast ekkert sambærilegt votlendi er að finna sunnan við Urriðavatn út allan Reykjanesskagann. Samspil ólíkra gróður­lenda á tiltölulega litlu svæði og nálægð þess við þéttbýli gefa svæðinu hátt náttúruverndar-, fræðslu- og útivistargildi.

Fyrirlesturinn á Youtube (athugið að hljóðgæði eru ekki góð)