23. janúar 2019. Arne Sólmundsson: Rjúpnagögn og gagn

Arne Sólmundsson verkfræðingur flytur erindið „Rjúpnagögn og gagn“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 23. janúar 2019 kl 15:15. Arne hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir SKOTVÍS Landssamtök skotveiðimanna, meðal annars sem varaformaður (2011–2015), er núverandi fulltrúi SKOTVÍS í samráðsnefnd um sjálfbærar veiðar (áður ráðgjafanefnd um úthlutun úr veiðikortasjóði) og í forsvari fyrir fagráð SKOTVÍS um vöktun, rannsóknir og veiðistjórnun.

Upplýsingagildi vöktunargagna um rjúpnastofninn er mikið og þykja þau eftirsótt meðal fræðimanna víðs vegar úr heimi til frekari úrvinnslu, sem hefur skilað aukinni þekkingu á ýmsum sviðum er snerta rjúpnastofninn.

Þessi áhugi er ekki síst til kominn fyrir þá staðreynd að gögnin spanna nærri 40 ára samfellda vöktunarsögu sem gerir þau einstaklega samanburðarhæf yfir langt tímabil. SKOTVÍS hefur síðan 2011 unnið með vöktunargögnin í þeim tilgangi að skýra betur fyrir veiðimönnum þá lýðfræðilega þætti sem hafa áhrif á lífshlaup rjúpunnar og ekki síst til að auka vitund um áhrif veiða, ekki eingöngu meðal veiðimanna, heldur einnig meðal fræðimanna, almennings og félagasamtaka auk stofnanna og stjórnsýslu. Ferlið hefur stuðlað að uppbyggilegu samtali og samstarfi milli allra hlutaðeigandi og mun leiða til markvissari ákvörðunartöku er snýr að framkvæmd veiða. Nokkrar greinar hafa birst í Tímaritinu SKOTVÍS um niðurstöður þessarar vinnu, en á Hrafnaþingi mun Arne Sólmundsson fjalla um aðdragandann, úrvinnslu og helstu niðurstöður þessa verkefnis frá sjónarhóli veiðimanna og næstu skref.

Fyrirlesturinn á Youtube