24. mars 2010. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir: Villisveppir á barrnálabeði: sveppavertíðin 2009

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur hjá Nattúrufræðistofnun, flytur erindi sitt „Villisveppir á barrnálabeði - sveppavertíðin 2009“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 24. mars næstkomandi.

Hvað gerist þegar sveppafræðingur skreppur út í skóg með körfu og beittan hníf undir því yfirskini að safna sér sveppum í matinn til vetrarins? Jú, oftast nær finnur hann æta sveppi, fyllir körfuna og situr langt fram á kvöld við að verka þá. Það þarf hins vegar mikla einbeitingu til þess að safna ekki allt of mörgum öðrum áhugaverðum sveppum til nánari skoðunar. Í erindinu verða sagðar sögur af nokkrum ferðum út í skóg að safna sveppum sumarið 2009 með áherslu á allt það óvænta sem uppgötvaðist.

Júlímánuður 2009 var tiltölulega þurr á Norðurlandi en í ágúst rigndi nóg til þess að sveppir bæru aldin í stórum stíl. Í byrjun ágúst tók lerkisveppur að bera aldin en þann 13. ágúst varð vart þverfótað fyrir lerkisvepp í skógarreitum í Eyjafirði og góð uppskera fékkst af furusveppi og kúalubba næstu dagana. Í Miðhálsstaðaskógi í Öxnadal fannst kornasúlungurSuillus granulatus, pípusveppur sem ekki var vitað til að yxi hérlendis þótt hann hefði sést við Rauðavatn haustið 1959.

Kornasúlungur, Suillus granulatus, á fundarstað í Miðhálsstaðaskógi
Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Kornasúlungur, Suillus granulatus, á fundarstað í Miðhálsstaðaskógi.

Kornasúlungur, Suillus granulatus. Mjólkurlitaðir dropar sitja á ungu pípulaginu.
Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Kornasúlungur, Suillus granulatus. Mjólkurlitaðir dropar sitja á ungu pípulaginu.

Þessi smávaxni pípusveppur reyndist vera Suillus granulatus (L.: Fr.) Roussel, kornasúlungur, sem myndar svepprót með tveggja nála furum. Hatturinn var 20-40 mm á breidd og aldinið 35-50 mm á hæð. Hatturinn var ljósrauðbrúnn á lit, hálfkúlulaga fyrst en varð síðan hvelfdur, hatthúðin rök án þess að vera áberandi slímug og hægt var að losa hana frá hattholdinu sem var daufgult á litinn. Pípulagið var frekar þunnt og með sterkari gulum lit en hattholdið. Ungar pípur voru svo grannar að op þeirra sáust varla en pípulagið var þakið samlitum kornum og á því sátu mjólkurlitaðir dropar. Þegar aldinin stækkuðu urðu pípuopin fyrst reglulega hringlaga en síðar svolítið köntuð og pípuendarnir sátu örlítið mishátt í laginu. Stafurinn var gulhvítur og með kirtilkorn sem fyrst voru samlit honum en urðu síðan eins og örlitlir brúnir deplar á gulhvítum stafnum sem var 20-30 mm langur og 8-12 mm breiður og nokkuð jafn. Neðsti hluti stafs varð brúnn og stafurinn var án kraga. Lykt var dauf sem og bragð.

Kornasúlungs er getið í ferðadagbók Morten Lange, dansks sveppafræðings, sem rannsakaði fungu Suðurlands fyrir réttum 50 árum og fann eitt aldin þeirrar tegundar í gamla barrskógarreitnum við Rauðavatn í Reykjavík þann 1. september 1959. Þar sem því aldini var ekki safnað var ekki unnt að staðfesta fund tegundarinnar hérlendis.

Kornasúlungur vex með furu í frekar frjóum jarðvegi, er ekki sérlega algengur í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, fátíður í Danmörku og verður sjaldgæfur til fjalla og þegar norðar dregur í Skandinavíu. Hann verður mun stærri en aldinin sem hér fundust eða u.þ.b. 80 mm breiður á hattinn og 100 mm hár og er prýðilegur matsveppur þegar búið er að fjarlægja hatthúðina.

Kornasúlungur - Suillus granulatus
Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Nærmynd af pípulagi þar sem kornin sjást frá staf og út að barði.