24. mars 2021. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Ferðir ungra arna kortlagðar með rafeindatækni

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Ferðir ungra arna kortlagðar með rafeindatækni“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 24. mars 2021 kl. 15:15. 

Nær allir arnarungar sem komist hafa á legg frá og með 2004 hafa verið litmerktir, svo oft er unnt að greina þá á færi, t.d. þegar þeir hefja varp. Nú eru um 70% varpfuglanna litmerktir og því hægt að fylgjast með lífslíkum fuglanna og ábúð á einstökum setrum. Hafernir eru langlífir, fara yfirleitt ekki að verpa fyrr en 5–7 ára gamlir og er lítið er vitað um háttarlag þeirra fram að þeim tíma.

Til þess að varpa ljósi á búsvæðanotkun og ferðir ungra arna voru leiðarritar (gps-loggers) settir á samtals 14 arnarunga á árunum 2019 og 2020. Leiðarritarnir ganga fyrir sólarrafhlöðum og fer virkni þeirra því eftir daglengd, er mest á sumrin en mun minni á vetrum. Ungarnir dvöldu allir undir verndarvæng foreldra fram á vetur, sumir fram í mars en lögðu þá land undir fót og hafa farið víða um land. Einstakar staðsetningar eru yfir hálf milljón en tækin nema auk þess flughæð og ferðahraða. Þegar best lætur er því hægt að kortleggja nákvæmlega ferðir fuglanna á um fimm mínútna fresti.

Gera má ráð fyrir að ernirnir beri leiðarritana ævilangt, svo að með tímanum verður hægt að kortleggja nákvæmalega ferðir þeirra, hvernig nýta tímann og velja leiðir. Þetta mun nýtast við mat á þýðingu einstakra svæða og hvar beri að forðast að reisa t.d. vindmyllur en þær eru örnum skeinuhættari en flestum öðrum fuglum.

Fyrirlesturinn á Youtube