25. apríl 2012. Kristinn P. Magnússon: Erfðabreytt náttúra

Kristinn P. Magnússon

Kristinn P. Magnússon

Kristinn P. Magnússon sameindaerfðafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Erfðabreytt náttúra“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 25. apríl kl. 15:15.

Líffræðileg fjölbreytni er undur lífsins, hráefni þróunar og grundvöllur þess að lífverur og vistkerfi geti aðlagast breyttum aðstæðum. Grunneining líffræðilegrar fjölbreytni er erfðabreytileiki einstaklingsins. Stofnar, tegundir, og heilu vistkerfin standa og falla með fjölbreytileika erfðamengja einstaklinganna. Þannig endurspeglar erfðabreytileiki lýðfræðilega byggingu og þróunarsögu stofns.

Án erfðaefnis þrífst ekkert líf og án erfðabreytinga verður engin þróun. Erfðaefnið er eins í öllum lífverum tvöfaldur spírall sem er samsettur úr DNA kjarnsýrunum fjórum adenín, cytósín, gúanín og týmín. Þess vegna er hægt að flytja insúlíngen úr manni í aðrar lífverur eins og sveppi eða bakteríur og fá þær til að framleiða prótín sem má einangra til að meðhöndla sykrusýki. Þannig er lyf eins og insúlín sem er framleitt í örverum nákvæmlega eins og insúlín sem er framleitt í manni og með sömu virkni. Á sama hátt hefur erfðatæknin gefið okkur innsýn í flókinn heim lífsins og sjúkdóma mannsins. Framfarir í læknisfræði og heilbrigðisvísindum eiga erfðatækninni mikið að þakka. Möguleikar erfðatækninnar eru óteljandi og margir sem fela í sér aðkallandi lausnir á yfirvofandi offjölgunarvanda mannkyns. Það hefur aldrei verið mikilvægara en í dag að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og það verður best gert með því að vernda villta náttúru samhliða því sem við reynum að hámarka matvælaframleiðslu og nýtingu á þeim landbúnaðarsvæðum sem þegar standa til boða.

„Erfðabreyttar lífverur hafa fengið eitt eða fleiri framandi gen með hjálp erfðatækninnar og eru nýttar í rannsóknum, lyfjaiðnaði, landbúnaði og matvælaframleiðslu.“

Maðurinn hefur stundað kynbætur á nytjaplöntum og húsdýrum í á annan tug þúsunda ára og ræktað fram afbrigði sem eru orðin mjög frábrugðin upprunalegu tegundinni. Þannig má með réttu halda því fram að flestar þær tegundir nytjaplantna og húsdýra í dag séu erfðabreyttar lífverur. En, hver er þá munurinn á erfðabreyttum lífverum sem hafa verið ræktaðar fram með kynbótum og þeim sem hafa verið búnar til með hjálp erfðatækni?

Afkastamikill landbúnaður byggist á skipulagðri rækt á einsleitum kvæmum tegunda sem gefa af sér góða uppskeru. Með erfðatækni er hægt að erfðabreyta nytjaplöntum til að hámarka uppskeru með því að gera markvissar breytingar á erfðamenginu. Erfðabreyttur landbúnaður mun í framtíðinni mæta aukinni eftirspurn eftir matvælum, hráefni í lífeldsneyti, grænum efnasamböndum og auðniðurbrjótanlegu lífrænu plasti og olíum.
Erfðabreytt ræktun, lífræn ræktun og verndun líffræðilegrar fjölbreytni getur hæglega þrifist saman án vandræða. Íslendingar þurfa hins vegar að vera á varðbergi gagnvart ágengum framandi tegundum, hinni raunverulegu ógn sem steðjar að lífríki okkar.

Upptaka af erindinu

Maískólfar villtu plöntunar og  kynbætta afbrigðisins
Mynd: Understanding evolution

Maískólfar villtu plöntunar og kynbætta afbrigðisins. Árangur þúsund ára kynbóta

Erfðabreyttur lax sem vex tvöfalt hraðar en sá villti.
Mynd: AquaBounty Technologies

Erfðabreyttur lax sem vex tvöfalt hraðar en sá villti. Laxarnir á myndinni eru jafngamlir