25. nóvember 2009. Svenja N.V. Auhage: Fuglalíf á endurheimtum vötnum á Vesturlandi

Svenja Auhage

Svenja N.V. Auhage

Svenja N.V. Auhage, umhverfis- og vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindið „Fuglalíf á endurheimtum vötnum á Vesturlandi“.

Á síðustu öld tók votlendi miklum breytingum hér á landi vegna framræslu og ræktunar mýra. Á láglendi hafa mýrar víðast hvar verið ræstar fram og lítið er eftir af ósnortnu landi. Framræslan hefur haft mikil áhrif á votlendi; jarðvatnsstaða hefur lækkað og gróðurfar í mýrum breyst. Búsvæði votlendisplantna og dýra hafa orðið fyrir mikilli röskun.

Fyrstu tilraunir til endurheimtar votlendis hófust á Íslandi árið 1996. Árið 2008 hafði endurheimt verið reynd á mýrum, vötnum og tjörnum á um 20 stöðum á landinu. Frá árinu 2001 hefur Vegagerðin tekið þátt í endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð.

Rannsóknir á fuglalífi á endurheimtu votlendi hafa verið mjög litlar hér á landi. Aðeins liggja fyrir fáar lýsingar og tegundalistar frá nokkrum endurheimtum svæðum. Hlynur Óskarsson við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem unnið hefur með Vegagerðinni að endurheimtarverkefnum, kannaði fuglalíf við Kolviðarnesvatn Syðra, tjarnirnar við Staðarhús og Saura fyrir og stuttu eftir endurheimt þessara svæða.

Snæfellsnes
Mynd: Svenja Auhage

Séð yfir á Snæfellsnes

Fuglalíf á vötnum á Vesturlandi

Í verkefni þessu, sem styrkt er af Vegagerðinni, er rannsakað fuglalíf á endurheimtum vötnum og tjörnum á Vesturlandi og borið saman við óröskuð vötn og tjarnir á sama svæði. Talningar hófust um miðjan maí 2009 og voru þær endurteknar sex sinnum fram á haust. Ráðgert er að verkefnið standi í a.m.k. 2 ár. Verkefnið á að varpa ljósi á áhrif endurheimtar á fuglalíf og meta árangur aðgerða.

Valin voru 58 vötn, tjarnir og mýrarpollar: 24 á Mýrum, 8 við Löngufjörur og 26 í Staðasveit. Af þeim eru 10 endurheimt: 8 á Mýrum, 1 við Löngufjörur og 1 í Staðasveit. Af endurheimtum svæðunum voru þrjú vötn sem endurheimt voru af Vegagerðinni árið 2001: tjarnir í landi Staðarhúsa ofan við Borgarnes, tjarnir í landi Saura á Mýrum og Kolviðarnesvatn Syðra í Eyjahreppi á Snæfellsnesi.

Sumar fuglategundir, einkum andfuglar, gefa vísbendingar um almennt lífríki vatnanna. Álftir eru grasætur og fæða þeirra er gróður í vötnum og á vatnsbökkum. Himbrimar og toppendur veiða smáfisk í vötnum. Duggendur og hávellur nýta vötn þar sem lítil krabbadýr finnast. Skúfendur, stokkendur, rauðhöfðaendur og hettumáfar eru m.a. mýætur. Kría gefur ekki örugga vísbendingu, því hún aflar oft fæðu annars staðar. Svartbakar, lómar og æðarfugl segja ekkert um lífríki vatnanna, þar sem vötnin eru aðeins varpstaðir þeirra en fæðu er aflað í sjó.

Álft
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Álft er dreifð um allt athugunarsvæðið

Fyrstu niðurstöður

Gerð verður grein fyrir dreifingu nokkurra lykiltegunda á rannsóknasvæðinu:

Álft er auðtalin og auðvelt er að staðfesta varp og meta viðkomu. Alls voru talin 37 varppör og sáust álftir á 44 af 58 vötnum, þar af á 9 endurheimtum vötnum. Álft er dreifð um allt athugunarsvæðið.

Stokkönd er frekar erfitt að telja; hún er ekki fast bundin við vötn og mjög erfitt er að meta varp.Varp fannst þó við 16 vötn og stokkendur sáust á 38 af 58 vötnum, þar af á 4 endurheimtum. Stokkönd er dreifð um allt athugunarsvæðið.

Skúfönd er eindreginn vatnafugl, sem er mun viðráðanlegri en stokköndin. Varp var við 5 vötn í Staðasveit og skúfendur sáust á 15 af 58 vötnum, þar af á 3 endurheimtum.

Fyrstu niðurstöður eftir sumarið 2009 benda til að almennt lífríki og fuglalíf vatna á Vesturlandi sé afar mismunandi. Alls sáust 23 tegundir vatnafugla á vötnunum. Tegundaauðgi (species richness) fugla var mest á vötnum í Staðasveit og við Kolviðarnesvatn syðra (endurheimt árið 2001). Tegundaauðgi á endurheimtum vötnum var svipuð eða jafnvel meiri en á náttúrulegum vötnum. Hugsanlega má rekja það til næringarefnaauðgunar og mikillar blómgunar í gróðri og smádýralífi fyrstu ár eftir endurheimt.