26. febrúar 2003. Ólafur Einarsson: Ný Náttúruverndaráætlun: Tillögur NÍ um verndun lífríkis

Ólafur Einarsson fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 26. febrúar 2003.

Í lögum frá árinu 1999 er kveðið á um að umhverfisráðherra skuli láta vinna náttúruverndaráætlun á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi, en Náttúrufræðistofnun hefur veigamiklu hlutverki að gegna í vinnu að áætluninni. Í erindinu verður greint frá nýjum tillögum stofnunarinnar sem unnar voru vegna Náttúruverndaráætlunar 2002 og voru birtar nýlega í skýrslu sem fjallar um verndun á lífríki. Í tillögunum eru nefnd 40 svæði sem leggja ætti áherslu á að friða næstu árin. Stærð þeirra er frá 1 til 1000 km2. Stofnunin leggur til að friðaðar verði fleiri tegundir plantna en þegar hefur verið gert. Lögð verði áhersla á að friða svæði þar sem gróður er sérstæður og fágætar plöntur vaxa. Tillögur eru um verndun sjö fuglategunda. Auk þess er lagt til að stærstu fuglabjörg landsins verði vernduð sérstaklega en þau hafa alþjóðlegt verndargildi. Í erindinu verður fjallað í máli og myndum um hinar nýju tillögur.

Löngufjörur
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Við Löngufjörur. Horft að Snæfellsjökuli frá Kaldárósi í Hnappadal. Löngufjörur eru innan eins þess svæðis sem Náttúrufræðistofnun Íslands leggur til að verði verndað í tillögum vegna náttúruverndaráætlunar.

Veiðivötn
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Frá Veiðivötnum, Eskivatnskjaftur milli Kvíslarvatns (t.v.) og Eskivatns. Veiðivötn eru eitt þeirra svæði sem lagt er til að verði verndað í nýrri náttúruverndaráætlun.