26. mars 2003. Sveinn P. Jakobsson: Hryggir og stapar í vestra gosbeltinu

Sveinn P. Jakobsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 26. mars 2003.

Hryggir og stapar eru flóknar gosmyndanir sem eiga uppruna sinn að rekja til gosa í eða undir jökli. Þótt þessi móbergsfjöll séu algeng hér á landi, hefur þeim verið gefinn fremur lítill gaumur. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur undanfarinn áratug staðið fyrir rannsóknum á móbergsfjöllum í vestra gosbeltinu, á svæðinu milli Þingvallavatns og Auðkúluheiðar. Markmiðið er að kanna uppbyggingu móbergsfjallanna, greina fjölda goseininga og meta við hvaða aðstæður þau hlóðust upp.

Klukkutindar norður af Laugarvatni
Mynd: Sveinn Jakobsson

Móbergshryggir, þar á meðal Klukkutindar, norður af Laugarvatni.

Á svæðinu hafa greinst 232 goseiningar frá Brunhes-segulskeiðinu. Yngri móbergsfjöllin skiptast í tvo formflokka, móbergshryggi og stapa. Í erindinu mun Sveinn ræða hvernig á því stendur að hryggir myndast í sumum tilvikum en stapar í öðrum. Af uppbyggingu fjallanna má stundum ráða í hvaða hæð vatnsborðið hefur verið í jökulgeilinni á meðan á gosum stóð, en vatnsborðið gefur vísbendingu um þykkt jökulsins. Niðurstöður benda til að jökullinn í vestra gosbeltinu hafi á þessum tíma mest náð 600-700 m þykkt.

Íslenska móbergsmyndunin á ekki sinn líka á jörðinni og í erindinu verður fjallað um þýðingu þess að fjalllendið milli Þingvalla og Haukadalsheiðar verði friðað, en þar er einstakt safn hryggja og stapa.

Skriðan norður af Laugarvatni
Mynd: Björn Rúriksson

Skriðan norður af Laugarvatni, dæmi um formfagran stapa.