27. október 2004. Þóroddur F. Þóroddsson: Verndun og nýting jarðhitasvæða

Þóroddur F. Þóroddsson jarðfræðingur hjá Skipulagsstofnun flytur erindi á Hrafnaþingi 27. október 2004.

Fyrirlesturinn byggir á heimsókn til Nýja Sjálands og Japans á liðnu vori þar sem markmiðið var að skoða jarðhitavirkjanir og umhverfisáhrif þeirra og verður fjallað um nokkra þætti nýtingar og verndunar í máli og myndum.

Dæmi frá Nýja-Sjálandi...

Á Nýja-Sjálandi eru rúmlega 20 háhitasvæði og með núverandi tækni er áætlað meðalgildi nýtanlegrar orku um 3.600 MWe en ásættanlegt talið að nýta aðeins tæplega 900 MWe og verður komið inn á ástæður þess. Nýting jarðhitans er margháttuð, svo sem til raforkuvinnsla og í ferðaþjónustu og dæmi um talsvert önnur áhrif nýtingar á jarðhitasvæðin en hér á landi.
Stjórnvöld í Nýja-Sjálandi hafa verið að móta stefnu um nýtingu jarðhitans og liggur ýmis gagnasöfnun og flokkun svæða og jarðhitaminja þar að baki sem væntanlega má læra af.

Wirakei, Nýja Sjáland
Mynd: Þóroddur F. Þóroddsson

Wirakei, Nýja Sjáland, vinnsla í 45 ár að meðaltali um 160 MWe.

Kyushu, Japan
Mynd: Þóroddur F. Þóroddsson

Hatchobaru 2 x 55 MWe, Kyushu, Japan. Gangsett 1977 og 1990.

... og Japan

Í Japan eru fjölmörg jarðhitasvæði og 15 virkjanir stærri en 9,5 MWe sem framleiða raforku með samanlagt uppsett afl tæplega 530 MWe. Flest álitleg jarðhitasvæði til raforkuframleiðslu eru innan eða við mörk þjóðgarða sem hefur áhrif á möguleika orkufyrirtækja til að nýta þau en mikil hefð er fyrir annarri nýtingu svo sem til baða og í ferðaþjónustu.
Mannvirkjagerð vegna raforkuvera eru settar verulegar skorður sem sérstaklega verður fjallað um.