28. apríl 2004. Halldór G. Pétursson: Skriðuföll á Íslandi

Halldór G. Pétursson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 28. apríl 2004.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um árabil verið unnið að rannsóknum á skriðuföllum á Íslandi. Upplýsingum um ný skriðuföll hefur verið safnað en einnig hafa eldri skriðuföll verið könnuð og er þar byggt á verki Ólafs Jónssonar frá 1957 um Skriðuföll og snjóflóð. Fram að þessu hefur megináhersla hefur verið lögð á gerð skriðuannáls 20. aldar en með þeim upplýsingum fæst gott yfirlit um dreifingu og gerð skriðufalla á landinu og tengsl þeirra við veðurfar.

Voghamrar í Álftafirði 1997
Mynd: Halldór G. Pétursson
Ólafsfjarðarmúli, 1992
Mynd: Halldór G. Pétursson

Helstu gerðir skriðufalla og orsakir þeirra

Sem dæmi um mismunandi gerðir skriðufalla hérlendis má nefna grjóthrun, aurskriður úr giljum og urð utan á fjallahlíðum, ýmiss konar jarðföll eða jarðvegsskriður, aurblandin krapahlaup, berghlaup og jarðsig af ýmsum gerðum. Sem dæmi um helstu orsakir skriðufalla má nefna miklar rigningar og skyndileg úrhelli, asahláku og miklar leysingar, aukið grunnvatnsrennsli, undangröft jarðlaga og jarðskjálfta. Dæmi um skriðuföll eru þekkt úr öllum landshlutum en algengust eru þau þó í bröttum dalahlíðum á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum. Þar tengjast þau oft miklum haustrigningum og vorleysingum.

Rannsóknir á skriðuföllum mikilvægar

Rannsóknir á skriðuföllum er nauðsynlegar í tengslum við skipulag byggðar á ýmsum stöðum á landinu. Fjölmörg dæmi eru um tjón á ýmiss konar mannvirkjum af völdum þeirra og næst á eftir snjóflóðum eru skriðuföll þau ofanföll sem mestu manntjóni hafa valdið á landinu. Á vegum Ofanflóðasjóðs er nú unnið að hættumati vegna ofanfalla á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu og hefur Náttúrufræðistofnun komið að því verki í samvinnu við Snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands og Náttúrustofu Norðurlands vestra.

Næstu áfangar í rannsóknum stofnunarinnar á skriðuföllum, fyrir utan að halda áfram að skrá og rannsaka einstök skriðuföll, er að setja upp tölvutækan gagnagrunn um skriðuföll sem ætlunin er verði sem flestum aðgengilegur í framtíðinni. Þá er ætlunin að kanna frekar orsakir skriðufalla, m.a. tengsl þeirra við veðurfar og einnig hvernig sjálft skriðufallið fer fram. Auk þess eru hafnar rannsóknir á eðli og gerð svonefndra berghlaupa.

Garðsnúpur í Aðaldal, 1995
Mynd: Halldór G. Pétursson

Skriða í Garðsnúpi í Aðaldal árið 1995. Skriðufallið varð við vorleysingar og við það sópaðist vatnsósa jarðvegur ofan af berggrunninum í fjallshlíðinni.