28. febrúar 2018. Ólafur K. Nielsen: Stofnbreytingar rjúpu og heilbrigði

Ólafur Karl Nielsen

Ólafur K. Nielsen

Ólafur K. Nielsen vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Stofnbreytingar rjúpu og heilbrigði“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 28. febrúar kl. 15:15.

Reglubundnar sveiflur í fjölda fugla einkenna íslenska rjúpnastofninn, stofninn rís og hnígur. Á Norðausturlandi hafa verið þrjú hámörk í fjölda rjúpna síðan árið 2003, fyrst 2005, síðan 2010 og að lokum 2015. Rannsókn var gerð á heilsufari rjúpna í þessum landshluta á árunum 2006–2017. Mælingar voru gerðar á mörgum þáttum sem lýsa heilbrigði, m.a. á holdafari, sníkjudýrasýkingum og streitu. Hið árlega sýni voru 100 fuglar, 60 ungfuglar (kynjahlutföll 50:50) og 40 fullorðnir fuglar (kynjahlutföll 59:41). Fuglum fyrir rannsóknina var safnað í fyrstu viku október ár hvert.

Fyrri rannsóknir á íslensku rjúpunni hafa sýnt að afföll sem fuglarnir verða fyrir á tímanum nóvember til apríl ráða miklu um stofnbreytingar. Mælingar okkar í byrjun október endurspegla því ástand fuglanna í upphafi þessa mikilvæga tímabils í ársferli rjúpunnar. Holdastuðull rjúpnanna sýndi marktæk vensl við kyn (kvenfuglar skoruðu hærra en karlfuglar), aldur (fullorðnir fuglar skoruðu hærra en ungir) og ár. Árshrifin sýndu vensl holdastuðuls fuglanna og lýðfræðilegra þátta líkt og þéttleika, stofnbreytinga og affalla. Stofnstærð endurspeglaði holdafar fuglanna en með eins til tveggja ára töf; stofnbreytingar og afföll breyttust í takti við breytingar á holdastuðli. Samband holdastuðuls og stofnbreytinga var jákvætt en neikvætt á milli holdastuðuls og affalla. Niðurstöðurnar benda til þess að heilbrigði einstaklinga sé mikilvægur þáttur í stofnbreytingum rjúpunnar á Íslandi. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að heilbrigði fuglanna ákvarðist á tímabilinu júní til september. Þáttur afræningja, sníkjudýra og fæðu í þessari atburðarás yfir sumar og haust verður ræddur.

Fyrirlesturinn á Youtube

Stofnbreytingar rjúpu á Norðausturlandi 1981–2017

Stofnbreytingar rjúpu á Norðausturlandi 1981-2017. Gildin eru meðalþéttleiki karra á sex talningasvæðum í Þingeyjarsýslum.

Rjúpa til krufningar
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Til að rannsaka heilbrigði eru dauðar rjúpur mældar og krufðar og ýmis sýni tekin úr þeim til greiningar.

Rjúpur á flugi í ÞIngeyjarsýslu, óðalskarri hægra megin og tveir kvenfuglar fylgja honum
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Rjúpur á flugi, óðalskarri hægra megin og tveir kvenfuglar fylgja honum. Þingeyjarsýslur 1. maí 2015.