28. janúar 2004. Sigurður H. Magnússon: Áhrif beitarfriðunar á gróðurframvindu á lítt grónum svæðum

Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur flytur erindi á Hrafnaþingi 28. janúar 2004. 

Áhrif friðunar fyrir sauðfjárbeit á gróðurframvindu voru rannsökuð á 12 lítt grónum svæðum á landinu en þau lágu í 5 til liðlega 400 m h.y.s. Svæðin voru við 20-60 ára gamlar girðingar sem skildu að friðað land og beitt. Borin var saman gróðurþekja, tegundasamsetning og jarðvegur á friðuðu landi og beittu. Girðingarnar voru allar, utan ein, á landgræðslusvæðum. Rannsóknirnar, sem voru unnar í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, miðuðust við að meta árangur af friðun við mismunandi aðstæður á landinu.

Áhrif friðunar ráðast einnig af landgerð. Við friðun mela þróast gróður í átt til mosaþembu- og móagróðurs þar sem gamburmosar ásamt ýmsum móategundum eru ráðandi í gróðri. Við friðun sanda og vikra verða gróðurbreytingar hins vegar með öðrum hætti en þær stjórnast að miklu leyti af melgresi sem er lykiltegund í framvindu á slíku landi. Við friðun eykst þekja melgresis sem hleður undir sig áfoksefnum og myndar sandhóla. Frekari framvinda ræðst af flutningi sands og þeim aðstæðum sem melgresið skapar.

Niðurstöðurnar sýna að hægt er að flýta gróðurframvindu á örfoka og lítt grónu landi með friðun, einkum á láglendi en einnig á hálendissvæðum þar sem vaxtarskilyrði eru tiltölulega góð. Reikna má með að það taki áratugi að græða upp land með friðun einni en þau gróðurfélög sem myndast eru hins vegar með náttúrulegu yfirbragði. Búast má við að mikil fækkun sauðfjár í landinu að undanförnu og hlýnandi veðurfar eigi eftir að ýta mjög undir sjálfgræðslu lands.

Arnanesi við Öxarfjörð
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Gróinn sandur í Arnanesi við Öxarfjörð. Gróðurframvinda á sandsvæðum stjórnast víða af áhrifum melgresis sem er mjög eftirsótt beitarplanta og þrífst illa þar sem beit er mikil. Beitt land til vinstri en friðað til hægri.

Kaldidalur
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Grýttur melur á Kaldadal. Við friðun mela eykst oft þekja ýmissa fléttutegunda en margar þeirra þola traðk sauðfjár mjög illa. Beitt land til vinstri en friðað til hægri

Niðurstöðurnar sýna að friðun hraðar gróðurframvindu á lítt grónu landi. Við friðun eykst heildargróðurþekja vegna aukningar háplantna, mosa og fléttna. Á friðuðu landi verður gróður tegundaríkari og samsetning hans önnur en á beittu landi. Áhrif friðunar eru mismikil eftir svæðum. Mest eru þau þar sem gróðurskilyrði eru hvað best, þ.e. á láglendi þar sem jarðvegur er tiltölulega stöðugur. Niðurstöðurnar sýna einnig að við góð gróðurskilyrði getur land gróið upp þrátt fyrir talsverða beit en gróðurfar verður þó ólíkt því sem er á friðuðu landi.

Keldnahraun á Rangárvöllum
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Keldnahraun á Rangárvöllum. Við friðun lítt gróinna svæða eykst gróðurþekja og háplöntutegundum fjölgar. Beitt land til vinstri en friðað til hægri.

Ásakvíslar í Meðallandi
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Gróðurmælingar á friðuðu landi við Ásakvíslar í Meðallandi.

Áhrif friðunar ráðast einnig af landgerð. Við friðun mela þróast gróður í átt til mosaþembu- og móagróðurs þar sem gamburmosar ásamt ýmsum móategundum eru ráðandi í gróðri. Við friðun sanda og vikra verða gróðurbreytingar hins vegar með öðrum hætti en þær stjórnast að miklu leyti af melgresi sem er lykiltegund í framvindu á slíku landi. Við friðun eykst þekja melgresis sem hleður undir sig áfoksefnum og myndar sandhóla. Frekari framvinda ræðst af flutningi sands og þeim aðstæðum sem melgresið skapar.

Niðurstöðurnar sýna að hægt er að flýta gróðurframvindu á örfoka og lítt grónu landi með friðun, einkum á láglendi en einnig á hálendissvæðum þar sem vaxtarskilyrði eru tiltölulega góð. Reikna má með að það taki áratugi að græða upp land með friðun einni en þau gróðurfélög sem myndast eru hins vegar með náttúrulegu yfirbragði. Búast má við að mikil fækkun sauðfjár í landinu að undanförnu og hlýnandi veðurfar eigi eftir að ýta mjög undir sjálfgræðslu lands.

Sandvík í Bárðardal
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Stórgrýttur melur í Sandvík í Bárðardal. Dæmi um land þar sem friðun hefur haft lítil áhrif á framvindu gróðurs.

Melur á Jaðri í Hrunamannahreppi
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Friðaður melur á Jaðri í Hrunamannahreppi. Landnám gróðurs er mest í lægðum, en þar er jarðraki og skjólsælt.