29. nóvember 2006. Regína Hreinsdóttir: Flokkun vistgerða með fjarkönnun

29. nóvember 2006. Regína Hreinsdóttir: Flokkun vistgerða með fjarkönnun

Regína Hreinsdóttir, landfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í erindinu var sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem unnin var á Vesturöræfum og Brúardölum til að kanna möguleika á nýtingu fjarkönnunar (SPOT-5) við kortlagningu vistgerða á hálendi Íslands. Til flokkunar voru notuð vettvangsgögn úr fyrri vistgerðarannsóknum á Vesturöræfum og Brúardölum.

Fimm gróðurlyklar, RVI, DVI, SAVI, GNDVI og NDVI, voru prófaðir til samanburðar á hæfni þeirra til að aðgreina vistgerðir. Vettvangsgögn úr fyrri vistgerðarannsóknum á rannsóknarsvæðinu voru notuð til að kanna fylgni gróðurlykla við heildargróðurþekju, þekju háplantna, mosaþekju, þekju skánar, grýtni og heildarfjölda háplantna hverrar vistgerðar.

Sömu vettvangsgögn voru einnig notuð til flokkunar SPOT-5 myndarinnar á öllum litrófsböndum, annarsvegar með stýrðri flokkun og hinsvegar með sjálfvirkri flokkun. Hæðarlíkan og vatnafarsgögn voru ennfremur notuð við frekari flokkun og leiðréttingar. Vistgerðakort sem var útbúið út frá flokkuninni var borið saman við vistgerðakort sem byggt er á vörpun gróðurfélaga úr hefðbundnum gróðurlykli í vistgerðir og reyndist nákvæmni fjarkönnunarkortsins nokkru meiri en gróðurfélagakortsins.

Verkefnið Vistgerðaflokkun með fjarkönnun, var samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Háskólasetursins á Hornafirði. Verkefnið var styrkt af RANNÍS, markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál, 2003–2005.