29. október 2008. Borgþór Magnússon: Fýllinn í Rangárvallasýslu: útbreiðsla og saga

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur og forstöðumaður Vistfræðideildar á Náttúrufræðistofnun, flytur fyrsta erindi Hrafnaþings á þessum vetri. Erindi Borgþórs ber heitið „Fýllinn í Rangárvallasýslu: útbreiðsla og saga“.

Fýll á sér merkilega sögu bæði hér á landi og í norðanverðu Atlantshafi þar sem hann hefur numið ný lönd og stórfjölgað undanfarnar aldir. Að uppruna er fýllinn hánorrænn fugl en heimkynni hans og varpstöðvar voru bundin við svæði langt norðan Íslands. Á fyrri hluta 17. aldar er aðeins vitað til að fýll hafi orpið í Kolbeinsey og Grímsey hér við land. Um miðja 18. öld tók hann að dreifast suður á bóginn og hóf að verpa í Vestmannaeyjum og Eldey.

Um 1820 eru fyrstu heimildir varp fýls uppi á landi er hann tók heima í hömrum við Höfðabrekku í Mýrdal. Á næstu áratugum breiddist varpið út um Hjörleifshöfða og Víkurhamra. Um 1860 hafði fýllinn náð vestur til Eyjafjalla en þar var fyrsta varpið í Drangshlíðarfjalli. Í dag er fýll mjög algengur varpfugl í björgum við sjó allt í kringum landið og víða hefur hann einnig sótt inn til landsins.

Sumarið 1980 vann höfundur að rannsóknum fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands á útbreiðslu og stofnstærð fýls í Rangárvallasýslu. Farið var um sýsluna frá Árgilsstaðafjalli í Hvolhreppi austur að Jökulsá á Sólheimasandi. Vörp voru kortlögð, fuglar taldir og upplýsinga aflað hjá heimafólki um aldur varpanna og nytjar af fýlnum. Vorið 2008 voru nokkur vörp heimsótt að nýju og fuglar taldir til að kanna hvort miklar breytingar hefðu orðið á vörpunum. Í erindinu verður greint frá niðurstöðum rannsóknanna.

Fýlsvörp sem kortlög voru í Rangárvallasýslu sumarið 1980
Mynd: Anette Theresia Meier

Fýlsvörp sem kortlög voru í Rangárvallasýslu sumarið 1980. Ártöl sýna hvenær fýll tók fyrst að verpa á viðkomandi svæði að því best er vitað

Drangshlíðarfjall undir Eyjafjöllum þar sem fýll tók að verpa um 1860
Mynd: Erling Ólafsson

Drangshlíðarfjall undir Eyjafjöllum þar sem fýll tók að verpa um 1860 og var það fyrsti varpstaður fuglsins í Rangárvallasýslu

Fýlar í varpi í Flókastaðagili í Fljótshlíð
Mynd: Borgþór Magnússon

Fýlar í varpi í Flókastaðagili í Fljótshlíð, þar varð fyrst vart við varp árið 1977