30. apríl 2014. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Merkilegir melrakkar

30. apríl 2014. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Merkilegir melrakkar

Melrakkinn er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og finnst hann um allt land. Tegundin er hánorræn og hefur aðlagast loftslagi og fæðuframboði norðurhjarans vel. Útbreiðslusvæðið hefur þó dregist verulega saman sl. öld og hafa tófur verið friðaðar á Norðurlöndunum í yfir 80 ár. Talið er að hlýnandi veðurfar á norðurslóðum séu megin ástæða fyrir vandræðum tegundarinnar. Á Íslandi hafa refaveiðar hafa verið stundaðar frá örófi alda, ýmist vegna feldarins sem var dýrmætur en einnig til að mæta tjóni á búfé af völdum refa. Gríðarlega miklum fjármunum hefur verið varið í veiðarnar en tjónið hefur aldrei verið metið og er því óþekkt. Rannsóknir í samstarfi við veiðimenn hófust á níunda áratug síðustu aldar og hafa vakið athygli út fyrir landsteinana. Stofnmatið sýnir að refum hefur fjölgað allt frá því mælingar hófust en refastofninn var í lágmarki upp úr 1970. Ástæða fjölgunarinnar er væntanlega betri afkoma og er hlýnandi veðurfar mikilvægur þáttur. Frá 1997 hefur þó fjölgunin orðið hraðari en áður og má leiða líkum að því að aukin hvatning til vetrarveiða og óhóflegt magn ætis sem lagt er út sem agn víða um landið skipti þar miklu. Takmarkandi þættir stofns á borð við tófuna eru einmitt fæða að vetrarlagi en hún skiptir höfuðmáli fyrir lífslíkur og frjósemi læðna. Vegna félagsgerðar tímgast aðeins hluti kynþroska dýra af báðum kynjum. Þar sem grenjavinnsla hefur verið stunduð hérlendis um langt skeið virðist sem yngri dýr nái að tímgast en gerist á svæðum þar sem ekki er stunduð grenjavinnsla. Með auknu veiðiálagi hefur ekki tekist að stemma stigu við stækkandi stofni og hefur átakið haft þveröfug áhrif.

Afar brýnt er að fylgjast áfram með stofnbreytingum og besta leiðin er sú að fá sýni úr úrtaki veiðimanna af öllu landinu. Á síðasta ári var sýnt fram á að refir við sjávarsíðuna á Íslandi eru talsvert mengaðir af kvikasilfri en refir inn til landsins eru nánast lausir við þessi eiturefni. Ekki er allt sem sýnist og hugsanlega er íslenski refastofninn ekki eins sterkur og heilbrigður og menn hafa hingað til haldið. Ísland hýsir stærsta hluta Evrópustofnsins og ber ábyrgð á viðgangi hans. Rannsóknir á íslenska melrakkanum eru mikilvægari en nokkurn tímann, ekki síst vegna áhrifa hlýnunar á tegundina á heimsvísu.

Fyrirlesturinn á YouTube