30. janúar 2008. Þorsteinn Sæmundsson: Berghlaupið við Morsárjökul

Þorsteinn Sæmundsson
Mynd: NN

Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra mun fjalla um berghlaup sem féll á Morsárjökul 17. apríl 2007. Hópur vísindamanna hefur unnið að kortlagningu berghlaupsins og voru farnar nokkrar ferðir upp á jökulinn síðastliðið sumar.

Auk Þorsteins hafa sérfæðingar frá Veðurstofu Íslands, Vatnamælingum Orkustofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Laboratory of Physical & Environmental Geography, Clermont-Ferrand, Frakklandi, Náttúrustofu Suðurlands og Náttúrustofu Norðurlands vestra komið að rannsókn og kortlagningu berghlaupsins.

Berghlaupið féll úr hamrinum austan við efsta hluta jökulsins rétt innan við Birkidal, dalverpi sem gengur til austurs, norðan við Skarðatind. Brotsár hlaupsins liggur í um 950-620 m hæð og er allt að 330 m hátt. Það féll á jökulinn í um 500 m hæð og stöðvaðist skriðutungan í um 350 m hæð. Breidd skriðutungunnar er um 470 m og er hún 1400-1600 m löng, eða um 700.000 m2. Meðalþykkt er áætluð um tæplega 6 m. Talið að berghlaupið sé um 4 milljónir rúmmetra og telst til stærri berghlaupa sem fallið hafa hér á landi í seinni tíð.

Í fyrirlestrinum mun Þorsteinn sýna myndir sem teknar voru síðastliðið sumar af berghlaupinu, fjalla um orsakir þess, gerð berggrunns svæðisins og spá í eðli hreyfinga berghlaupsins. Þá verður sagt frá útreikningum sem gerðir voru með landlíkani af berghlaupstungunni og vandamálum sem fylgja slíkum útreikningum, meðal annars vegna örrar bráðnunar jökla á Íslandi hin síðari ár. Þorsteinn mun einnig fjalla almennt um berghlaup á Íslandi og bera berghlaupið við Morsárjökul saman við svipaða atburði sem gerst hafa á síðastliðnum áratugum.

Fyrirlesturinn verður ekki tekinn upp á Hrafnaþingi og gerður aðgengilegur á heimasíðu NÍ, þar sem um er að ræða nýjar og áður óbirtar niðurstöður, auk þess er rannsóknum ekki lokið.

Berghlaupið við Morsárjökull
Mynd: Matthew J. Roberts

Berghlaupið sem féll á Morsárjökul 17. apríl 2007, er eitt af stærri berg-hlaupum sem fallið hafa hér á landi.