30. nóvember 2011. Yann Kolbeinsson: Farleiðir og vetrarstöðvar íslensku skrofunnar

30. nóvember 2011. Yann Kolbeinsson: Farleiðir og vetrarstöðvar íslensku skrofunnar

Yann Kolbeinsson líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands flytur erindi sitt „Farleiðir og vetrarstöðvar íslensku skrofunnar“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 30. nóvember n.k.

Skrofa, Puffinus puffinus, verpir víðsvegar í Norður-Atlantshafi en nyrstu varpbyggðir hennar er að finna í Vestmannaeyjum. Vísbendingar eru um íslenski stofninn hafi minnkað töluvert á síðastliðnum tveimur áratugum, a.m.k. í aðalbyggðinni í Ystakletti og gæti viðvera katta í Ystakletti verið ein meginorsökin. Nauðsynlegt er að bæta þekkingu okkur á varpháttum skrofunnar og dreifingu hennar utan varptíma áður en verndaráætlun er gerð. Svokallaðir dægurritar (e. geolocator), sem skrá staðsetningu út frá sólargangi, voru settir á skrofur í Ystakletti á árunum 2006 til 2010 og endurheimtir árlega til 2011. Gögn fengust frá 14 fuglum og var útbreiðsla þeirra m.t.t. farflugs og vetrarstöðva rannsökuð, en fyrir suma fugla fengust allt af fimm ár af gögnum.

Á veturna dvöldu skrofurnar 14 að mestu á landgrunninu út af Argentínu í Suður-Atlantshafi og allt suður til Tierra del Fuego, við suðurenda Suður-Ameríku. Flestar virtust þær sækja á sömu slóðir ár eftir ár. Sambærileg rannsókn sem gerð var á skrofum er verpa í Bretlandi sýndi keimlíkar niðurstöður, en til samans benda rannsóknirnar tvær til þess að nær allur heimstofn skrofunnar hafi vetursetu á hafsvæðinu í suðvestanverðu Suður-Atlantshafi.