31. október 2012. Anna Sigríður Valdimarsdóttir: Gróður í Viðey í Þjórsá: gróðurfar á beitarfriðuðu svæði

Anna Sigríður Valdimarsdóttir

Anna Sigríður Valdimarsdóttir

Anna Sigríður Valdimarsdóttir, BS náttúrufræðingur og meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands flytur erindi sitt „Gróður í Viðey í Þjórsá: Gróðurfar á beitarfriðuðu svæði“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 31. október kl. 15:15.

Viðey í Þjórsá er stök ey suðaustan við bæinn Minna-Núp í Gnúpverjahreppi. Áin er þar djúp og straumþung og hefur eyin því notið nokkurrar verndar fyrir ágangi manna og búfjár. Í Viðey er gróskulegur birkiskógur sem ekki er að finna á bökkum árinnar en lítið er vitað um annan gróður í eynni.

Í rannsókn sem fram fór árið 2009 var gróðurfar Viðeyjar kannað. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna gróður í eynni og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvaða gerðir gróðurs er að finna í eynni? Hver er þekja og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður- og landgerðum í eynni og á svipuðu landi beggja vegna árinnar? Finnast sjalfgæfar plöntutegundir í eynni?

Í rannsókninni voru lagðir út 13 reitir sumarið 2009; fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Í Viðey finnast fjórar megingerðir gróðurs; birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. Í eynni fundust 74 tegundir háplantna, þ.á m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti. Þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri á bökkum árinnar en í samræmi við það sem komið hefur fram í öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum.

Sumarið 2011 var Viðey í Þjórsá friðlýst til verndunar lítt snortins og gróskumikils birkiskógar og því lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs, þá er sérstaklega treyst vísinda- og fræðslugildi eyjarinnar.

Fyrirlesturinn á Youtube

Viðey í Þjórsá
Mynd: Anna Sigríður Valdimarsdóttir

Viðey í Þjórsá séð ofan af Núpsfjalli ofan við bæinn Minna-Núp í Gnúpverjahreppi

Gróður í Viðey í Þjórsá
Mynd: Anna Sigríður Valdimarsdóttir

Í Viðey eru tvö grösug og blómleg rjóður. Hér er horft að Núpsfjalli úr vestara rjóðrinu