4. mars 2009. Starri Heiðmarsson: Vöktun tegundafjölbreytni við loftslagsbreytingar

starri

Starri Heiðmarsson

Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur og fagsviðstjóri grasafræði á Náttúrufræðistofnun, flytur erindi sitt „Vöktun tegundafjölbreytni við loftslagsbreytingar“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 4. mars.

Loftslag á jörðinni fer hlýnandi, líklegast af manna völdum (IPCC). Hver áhrif hlýnunarinnar verður á gróðurfar heimsins er erfitt að spá en sá gróður sem er viðkvæmastur fyrir hlýnuninni og mun líklega fyrst bregðast við er háfjallagróður. GLORIA-verkefnið er alþjóðlegt og byggir á að lagðir eru út fastir reitir á fjallatindum í mismunandi hæð. Gróðurþekja og tegundasamsetning er skráð í reitunum og þær mælingar svo endurteknar á 8–10 ára fresti. Vöktunarnet GLORIA mun geta sýnt fram á breytileg áhrif hlýnunar við mismunandi loftslagsskilyrði í mismunandi heimshlutum auk þess sem góður mælikvarði fæst á gróðurbreytingar á Íslandi vegna hlýnandi loftslags.

Markmið verkefnisins er að setja af stað vöktun til að mæla áhrif hnattrænnar hlýnunar á gróður einstakra fjallstinda á Tröllaskaga í mismunandi hæð (500–1200 m) yfir sjávarmáli. Tegundasamsetning, staðsetning og magn einstakra plantna á byrjunartímapunkti verður skráð eftir nákvæmlega stöðluðum aðferðum, sem ráðgert er að endurtaka að 8–10 árum liðnum, og síðan áfram með svipuðu millibili. Fyrstu niðurstöður um áhrif hlýnunar fást fyrst þegar endurmæling fer fram eftir 8–10 ár með samanburði við upphafsmælingu. Síðar fást upplýsingar um framhaldsbreytingar á sama svæði koll af kolli við síðari mælingar næstu áratugi og aldir.

Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni, GLORIA (Global Observation Research Initiative in Alpine Environments) sem hófst í Austurríki árið 1998. Það nær nú þegar til fjögurra heimsálfa og er stefnt að því að víkka út vöktunarnetið þannig að það nái til allra heimshluta. Aðferðirnar eru nákvæmlega staðlaðar og alls staðar þær sömu á öllum rannsóknasvæðunum. Úrvinnsla er bæði staðbundin en einnig er öllum gögnum safnað í einn pott til úrvinnslu á heimsmælikvarða.

Gróðurfar á Einbúa
Mynd: Starri Heiðmarsson

Gróðurfar á Einbúa í tæplega 700 m hæð

Gróðurfar á tindi í Fagranesfjalli í rúmlega 1200 m hæð.
Mynd: Starri Heiðmarsson

Gróðurfar á tindi í Fagranesfjalli í rúmlega 1200 m hæð

Nokkrar þeirra spurninga, sem verkefnið í heild kemur til með að geta svarað:

  1. Hafa loftslagsbreytingar í för með sér breytingar á tegundafjölbreytni gróðurs á hverju svæði fyrir sig?
  2. Verða breytingar á heildarþekju gróðursins?
  3. Breytast magnhlutföll tegunda verulega í toppaflórunni?
  4. Ef breytingar verða, eru þær mismunandi eftir hnattrænni stöðu eða hæð yfir sjávarmáli?
  5. Er hægt að skýra þær breytingar sem fram koma með hinum mældu hitastigsbreytingum?
  6. Sjást einhver merki um loftslagsháða hnignun einstakra tegunda eða tegundahópa?
  7. Hvaða breytingar í tegundafjölbreytni og magni einstakra tegunda má rekja til mismunandi hæðar yfir sjávarmáli?

Síðastliðið sumar voru 4 „tindar“ í Öxnadal valdir og þar mældir og merktir alls 64 fastir reitir. Í erindinu verður verkefnið kynnt auk þess sem sagt verður frá frumniðurstöðum. Umhverfissjóður Landsvirkjunar styrkti verkefnið.