5. desember 2007. Freydís Vigfúsdóttir: Sjófuglar í breytilegu umhverfi

5. desember 2007. Freydís Vigfúsdóttir: Sjófuglar í breytilegu umhverfi

Freydís Vigfúsdóttir, líffræðingur á Náttúrufæðistofnun Íslands heldur fyrirlestur þar sem hún greinir m.a.frá verkefninu Íslenskir bjargfuglastofnar og þeim helstu niðurstöðum sem nú liggja fyrir. Frumniðurstöður verkefnis um áhrif umhverfis á lundann í Vestmannaeyjum verða einnig kynntar.

Undanfarna áratugi hefur víða orðið vart við breytingar á stærð og afkomu sjófuglastofna og frekari breytinga hefur verið spáð vegna áhrifa loftlagsbreytinga. Vegna mikilvægis sjófugla í íslensku vistkerfi og alþjóðlegs mikilvægis Íslands sem varpstaðar fyrir þessar tegundir, er nauðsynlegt að fylgjast með stofnbreytingum hérlendis.

Verkefnið Íslenskir bjargfuglastofnar er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Hafrannsóknarstofnunar sem hófst árið 2006 undir stjórn Arnþórs Garðarssonar prófessors. Markmiðið er að meta fjölda fugla í björgum allt í kring um landið. Verkefnið er mikilvægt á heimsvísu en til að mynda verpa hér á landi allt að 70% allra álka í heiminum. Niðurstöður talninganna eru bornar saman við sambærilegar talningar sem fóru fram 1983-1986. Samkvæmt niðurstöðu talninga á Látrabjargi standa stuttnefjur í stað, langvíu og álku hefur fækkað um 1-1,5% árlega og árleg fækkun fýls og ritu er um 2%. Breytingarnar í Látrabjargi eru í takti við breytingar í Skoruvík á Norðausturlandi og í Krýsuvík á Suðvesturlandi, fyrir allar tegundir nema stuttnefju sem, öfugt við Látrabjarg, hefur fækkað hratt á þeim stöðum.

Lundaveiði hefur verið stunduð í Vestmannaeyjum öldum saman en þar má finna stærsta lundavarp í heimi, um 1.000.000 pör. Vísbendingar hafa einnig verið uppi um að brestur sé í afkomu lundans. Síðustu áratugi hafa veiðimenn í hverri úteyju haldið utan um tölur yfir magn veiði og ná elstu gögn aftur til 1944. Gott samræmis reyndist vera á milli veiðitalna frá mismunandi úteyjum. Niðursveifla síðustu ára kom berlega í ljós. Gögnin voru borin saman við ýmsar vísitölur á umhverfisbreytingum og fannst áhugavert samhengi milli stórra hringstrauma í hafinu fyrir suðvestan Ísland og lundaveiði 4-5 árum síðar.

Vegna legu landsins og þeirra sjávarrannsókna sem fara fram á íslenskum hafsvæðum getur Ísland gegnt lykilhlutverki í rannsóknum á hugsanlegum stofnbreytingum sjófugla sem geta tengst hnattrænum breytingum.