5. maí 2021. Þorkell Lindberg Þórarinsson: Staðið við gluggann – staða og þróun bjargfuglarannsókna á Íslandi

Þorkell Lindberg Þórarinsson

Þorkell Lindberg Þórarinsson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands flytur erindið „Staðið við gluggann – staða og þróun bjargfuglarannsókna á Íslandi“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 5. maí 2021 kl. 15:15.

Skipulegar rannsóknir á bjargfuglum hófust hér á landi á fyrri hluta níunda áratugs síðustu aldar, að frumkvæði dr. Arnþórs Garðarssonar, prófessors í líffræði við Háskóla Íslands. Þróaði hann og innleiddi endurtakanlegar aðferðir við mat á fjölda bjargfugla á Íslandi samhliða könnun sem náði til landsins alls. Að lokinni annarri landskönnun sem Arnþór, ásamt fleirum stóð fyrir upp úr aldamótum, hófust árlegar talningar á föstum sniðum í fuglabjörgum allt í kringum landið sem hafa að mestu verið í umsjá náttúrustofa. Síðasta áratuginn hefur vöktun bjargfugla því undið nokkuð upp á sig í umsjá Náttúrustofu Norðausturlands, m.a. samhliða tækninýjungum. Þá hefur á sama tímabili verið unnið að ýmsum rannsóknum á bjargfuglum sem tengja má við vöktun þeirra og eru líklegar til að auka skilning á þeim stofnbreytingum sem komið hafa fram í vöktun síðustu ára.

Fyrirlesturinn á Youtube

Fuglaathugunarmaðurinn Yann Kolbeinsson og sjálfvirk vöktunarmyndavél horfa yfir Köldugjá í Grímsey
Mynd: Þorkell Lindberg Þórarinsson

Yann Kolbeinsson líffræðingur horfir yfir Köldugjá í Grímsey, við hlið hans er sjálfvirk vöktunarvél.