5. mars 2008. Guðrún Gísladóttir: Áhrif jarðvegsrofs á kolefnisbúskap og landgæði

Guðrún Gísladóttir
Mynd: NN

Guðrún Gísladóttir

Guðrún Gísladóttir, náttúrulandfræðingur og prófessor við Land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands flytur fyrirlestur um áhrif jarðvegsrofs á kolefnisbúskap, en mikil umræða hefur átt sér stað um tengsl hækkandi styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti og hlýnun loftslags. Heilbrigt vistkerfi gróðurs og jarðvegs bindur mikið kolefni, en hnigni vistkerfinu dregur úr kolefnisbindingu og ef við bætist jarðvegsrof getur það leitt til aukins styrks CO2 í andrúmslofti auk þess sem það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir landgæði. Rannsóknin sem kynnt er, er samstarfsverkefni Guðrúnar Gísladóttur, Dr. Egils Erlendssonar landfræðings við Jarðvísindastofnun Háskólans, Dr. Rattan Lal prófessors og Dr. Jerry Bigham prófessors við Ohio State University í Bandaríkjunum.

Krýsuvíkurheiði á Reykjanesskaga er eitt þeirra svæða á landinu sem hafa liðið fyrir alvarlega gróðurhnignun og ákaft jarðvegsrof og er meginhluti svæðisins nú ógróinn. Gerð verður grein fyrir áhrifum jarðvegsrofs á kolefnisbúskap jarðvegs og landgæði á þessu svæði á sögulegum tíma. Í þeim tilgangi voru mæld jarðvegssnið þar sem jarðvegsþykknun frá landnámi var mæld, sem og kolefnishlutfall og uppsöfnun kolefnis. Einnig var áætlað heildarmagn áfoks og jarðvegstap á svæðinu frá landnámi og magn kolefnis sem hefur safnast upp í kjölfar áfoks og hversu mikið hefur tapast af svæðinu vegna rofs.

Fljótlega eftir landnám fór að bera á auknu áfoki, sem jókst til mikilla muna eftir 1226 vestast á svæðinu. Jarðvegsþykknun varð mikil og jarðvegur allur grófari og lausari í sér. Sambærilegar breytingar urðu ekki fyrr en eftir 1500 austar á rannsóknarsvæðinu. Jarðvegsmagn sem hlaðist hefur á gróinn hluta rannsóknarsvæðisins vegna áfoks er breytilegt en nemur 87 – 653 kg /m2 í samanburði við 11-71 kg/m2 sem búast hefði mátt við ef jarðvegsþykknun hefði verið óbreytt frá því fyrir landnám. Þetta jafngildir því að 1647*103t – 4117*103t af jarðvegi hafa bæst við gróið land á Krýsuvíkurheiði frá landnámi, en 118*103t –1147*103t tapast. Jarðvegsrof leiðir til taps á kolefni en einnig uppsöfnunar á öðrum stað, áfoks, þar sem kolefni berst með fokefni og sest til á grónu landi. Kolefni hefur safnast upp í jarðvegi vegna áfoks og hefur uppsöfnun aukist 4,6 – 7,6 sinnum á sögulegum tíma, sem jafngildir 17 – 27,5 kg/m2samanborið við 2,9 – 3,8 kg/m2 ef kolefnisuppsöfnun hefði verið sú sama á sögulegum tíma og fyrir landnám. Um 109.000 – 180.000 t kolefnis hafa bæst við Krýsuvíkurheiði á sögulegum tíma vegna áfoks, en 59.000 – 61.000 t tapast vegna rofs. Það kolefni sem gert er ráð fyrir að hafi myndast á staðnum nemur 27.600 – 28.400 t og er talið stöðugt. Hins vegar er gert ráð fyrir því að megnið af þeim 168.000- 241.000 t (168 -241 Gg) kolefnis sem hefur ýmist bæst við vegna áfoks eða rofist sé óstöðugt og geti leitt til aukins styrks CO2 í andrúmslofti. Það kolefni jafngildir 615.610 t -883.107 t CO2, eða 616 -883 Gg CO2 á svæði sem nemur 24 km2 síðastliðin 1135 ár. Til samanburðar má geta þess að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2003 nam 3534 Gg CO2 (3.534.000 t).

Hið mikla áfok og jarðvegsrof hefur leit til gríðarlegrar landhnignunar á svæðinu. Þó ber að geta þess að mikil uppgræðsla hefur átt sér stað á Krýsuvíkurheiði á undanförnum árum, en svæðið á langt í land með að ná þeim landgæðum sem voru á svæðinu við landnám.

Fyrirlesturinn verður ekki tekinn upp á Hrafnaþingi og gerður aðgengilegur á heimasíðu NÍ, þar sem um er að ræða nýjar og áður óbirtar niðurstöður, auk þess er rannsóknum ekki lokið.

Krýsuvík
Mynd: Sigrún Jónsdóttir

arðvegsrof og uppgræðsla í Krýsuvík