5. nóvember 2003. Sveinn Jakobsson: SURTSEY: 40 ára vöktun eldfjallaeyjar

Sveinn Jakobsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 5. nóvember 2003.

Nú í nóvember 2003 eru fjörtíu ár síðan Surtsey reis úr hafi. Jarðfræðingar fylgdust vel með eldgosunum (1963-1967) og gerðu margvíslegar rannsóknir á gosefnunum. En eyjan hefur einnig verið vöktuð síðan gosum lauk. Jarðvísindamenn hafa fylgst með sjávarrofinu, sigi eyjarinnar, þróun jarðhitasvæðisins, útfellingum sjaldgæfra steinda í hraunhellum, myndun móbergs úr gosöskunni og spáð hefur verið um framtíð Surtseyjar. Í erindinu mun Sveinn ræða helstu niðurstöður þessarra rannsókna.

Surtsey mældist 2,7 ferkílómetrar í lok gossins. Eyjan fór ört minnkandi fyrstu árin á eftir en síðan dró úr rofhraðanum. Nú er eyjan 1,39 ferkílómetrar, ríflega helmingur af upprunalegri stærð. Mælingar sýna að miðbik Surtseyjar hefur sigið um rúmlega metra síðan gosum lauk, en mjög hefur dregið úr siginu. Jarðhitasvæði myndaðist í eynni þegar dró að lokum gossins og fer hægt kólnandi. Af völdum hitans mynduðust ýmsar sjaldgæfar steindir og eru nokkrar þeirra að líkindum nýjar heimssteindir.

Myndun móbergs úr gosösku er háð jarðhitanum og þéttur móbergskjarni (0,39 ferkílómetrar) hefur myndast í eynni. Sjávarrofið mun áfram fjarlægja hraun og lausar jarðmyndanir og einfalt reiknilíkan sýnir að það gæt liðið 150 ár eða meira þar til móbergskjarninn verður einn eftir ofansjávar. Þetta líkan er þó aðeins gróf eftirlíking á raunverulegum aðstæðum. Móberg stenst sjávarrof mjög vel og líkur eru taldar á að Surtsey muni standa uppi um þúsundir ára.

Surtsey er nú ein best rannsakaða eldstöðin á landinu. Vísindamenn af ýmsum þjóðernum hafa stundað þar rannsóknir og niðurstöðurnar hafa haft þýðingu innan ýmissa greina vísindanna.

Surtsey 29. ágúst 2002
Mynd: Loftmyndir ehf.

Loftmynd af Surtsey, tekin 29. ágúst 2002

Vatnsrof í Austurbunka
Mynd: Sveinn P. Jakobsson

Vatnsrof norðan í Austurbunka. Móbergið kemur fram undan lausri gosöskunni.