6. apríl 2005. Ása L. Aradóttir: Uppgræðsla - hvað svo?

Ássandur í Kelduhverfi
Mynd: Ása L. Aradóttir

Gömul uppgræðsla á Ássandi í Kelduhverfi, þar sem birki og víðir hafa numið land. Lífræn jarðvegsskán er einnig áberandi í gróðurþekjunni en myndun hennar er mikilvæg fyrir landnám staðargróðurs.

Ása L. Aradóttir, plöntuvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins flytur erindi á Hrafnaþingi 6. apríl 2005.

Uppgræðsla er samheiti yfir margvíslegar aðgerðir til að auka gróðurhulu á lítt grónu landi. Uppgræðsla lands er yfirleitt ekki markmið í sjálfu sér, heldur er hún fyrsta skrefið á löngum ferli til vistheimtar. Hlutverk uppgræðsluaðgerða er því fyrst og fremst að hraða framvindu gróður- og dýrasamfélaga, stuðla að myndun og þróun jarðvegs og auka á ný virkni mikilvægra ferla eins og framleiðni, vatnsmiðlun og losun næringarefna.

Framvinda á rofsvæðum ber mörg einkenni frumframvindu og getur verið afar hæg. Hindranir eða „þröskuldar“ er tefja framvindu eru annars vegar tengdir lífverunum sjálfum og hins vegar ólífrænum þáttum. Sem dæmi um lífræna þætti má nefna fræframboð og afrán en ólífrænir þættir geta verið frostlyfting eða takmarkað framboð næringarefna. Uppgræðsluaðgerðir þurfa að yfirvinna þá þröskulda sem eru fyrir hendi og hafa áhrif á framvindu þannig að hún verði í samræmi við sett markmið á hverjum stað. Rannsóknir hafa sýnt að árangur uppgræðslu, hvað varðar gróðurfar og eiginleika vistkerfisins, fer bæði eftir því hvaða aðferðum er beitt og aðstæðum á hverjum stað.

Tilraunastofan á Geitasandi

Á undanförnum árum hefur verið unnið að uppbyggingu „útitilraunastofu” í landgræðslu á Geitasandi á Rangárvöllum í samstarfi allmargra aðila. Um er að ræða mjög viðamikla tilraun til að prófa mismunandi lausnir við uppbyggingu vistkerfa á röskuðum svæðum og kanna áhrif þeirra á framvindu og starfsemi vistkerfa. Tilraunin fylgir hefðbundnu tilraunaskipulagi með tíu mismunandi meðferðum sem hver er endurtekin fjórum sinnum Sérstaða tilraunarinnar felst hins vegar í stærð hennar. Hver tilraunareitur er einn hektari að stærð (100 x 100 m) til að líkja eftir raunverulegum aðstæðum á uppgræðslusvæðum og á milli reita er að lágmarki 50 m varðbelti til að draga úr jaðaráhrifum. Tilraunasvæðið nær því yfir meira en tvo ferkílómetra lands. Tilrauna¬meðferðirnar miðast við mjög fjölbreytt markmið, allt frá því að stöðva rof og koma af stað gróðurframvindu með lágmarksinngripum og yfir í það að samþætta landgræðslu- og skógræktaraðgerðir til margvíslegra nytja.

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður um áhrif mismunandi uppgræðsluaðgerða á myndun gróðurþekju, smádýralíf og eiginleika jarðvegs í tilraunareitunum á Geitasandi og verður sagt frá hluta þeirra í fyrirlestrinum. Þá verður einnig greint frá niðurstöðum úr öðrum rannsóknum á gróðri og kolefnisbindingu uppgræðslusvæða.

Uppgræðsla á Geitasandi
Mynd: Ása L. Aradóttir

Reitur með melgresissáningu í tilrauninni á Geitasandi.