6. febrúar 2019. Borgþór Magnússon: Langtímaáhrif alaskalúpínu á gróður og jarðveg

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 6. febrúar 2019 kl. 15:15. 

Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum nýlokinna rannsókna á framvindu gróðurs á svæðum þar sem alaskalúpína hefur vaxið og breiðst út um áratuga skeið. Þær fóru fram á 15 stöðum á suður- og norðurhluta landsins og voru endurtekning rannsókna sem gerðar voru um 20 árum fyrr á sömu stöðum. Leitað var svara við í hvers konar landi lúpína breiðist út, hvort hún sæki inn á gróið land, hvaða gróðurbreytingar fylgja henni, hvort hún hörfi með tímanum og hver áhrif hún hefur á jarðveg.

Í ljós kom að sunnanlands, þar sem úrkomusamara er og vaxtarskilyrði betri fyrir lúpínu en norðanlands, var framvinda fremur lík frá einu svæði til annars. Þar myndaðist með tímanum blómríkt graslendi í lúpínunni með þéttu mosalagi í sverði. Á nokkrum stöðum hafði lúpína gisnað mikið eða hörfað á gömlum vaxtarstöðum en ekki var það alls staðar.

Á Norðurlandi var framvinda hins vegar misjöfn eftir aðstæðum. Á melum í útsveitum jókst grasvöxtur í gömlum lúpínubreiðum en á þurrari svæðum inn til lands þróaðist gróður í mólendisátt á melum og í skriðum þar sem lúpína óx. Norðanlands breiddist lúpína auðveldlega yfir gamalt mólendi og dafnaði vel á moldarríkjum jarðvegi. Þar gjöreyddist lynggróður en myndaðist með tímanum elftingarríkt blómlendi í gömlum breiðum. Ekki komu fram jafn eindregin merki um hörfun lúpínu norðanlands og fyrir sunnan. Í Hrísey á Eyjafirði lagði þó skógarkerfill undir sig gamlar lúpínubreiður og varð einráður í landi.

Framvinda gróðurs og jarðvegs á lítt grónum svæðum getur verið mjög ör þar sem lúpína vex. Á nokkrum áratugum myndar lúpína við góðar aðstæður öflugt vistkerfi sem að framleiðslu, forða af kolefni og köfnunarefni í jarðvegi jafnast á við gamalgróið gras- og blómlendi. Rannsóknirnar bentu til að uppsöfnun kolefnis og köfnunarefnis í lúpínubreiðum á rýru landi væri umtalsvert meiri sunnanlands en norðan.

Líklegt er að útbreiðsla lúpínu og gróðurs sem fylgir í kjölfar hennar, svo sem skógarkerfils, muni margfaldast á næstu áratugum. Miklar breytingar verða á gróðurfari og búsvæðum dýra vegna þessa.

Langtímaáhrif alaskalúpínu á gróður og jarðveg á Íslandi (skýrslan, pdf)

Fyrirlesturinn á Youtube

Blómríkt graslendi í gömlu lúpínulandi á vikrum í Þjórsárdal þar sem lúpína hafði hörfað að mestu eftir um 30 ára viðveru
Mynd: Borgþór Magnússon

Blómríkt graslendi í gömlu lúpínulandi á vikrum í Þjórsárdal þar sem lúpína hafði hörfað að mestu eftir um 30 ára viðveru.

Lúpína leggur undir sig mólendi í Hrísey á Eyjafirði
Mynd: Borgþór Magnússon

Lúpína leggur undir sig mólendi í Hrísey á Eyjafirði. Skógarkerfill sem fylgir hér í kjölfar lúpínunnar nýtur góðs af aukinni frjósemi jarðvegs og verður einráður í landi er tímar líða.