6. mars 2013. Þorkell Lindberg Þórarinsson: Vetrarstöðvar íslenskra flórgoða

Þorkell Lindberg Þórarinsson

Þorkell Lindberg Þórarinsson

Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, flytur erindi sitt „Vetrarstöðvar íslenskra flórgoða“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 6. mars kl. 15:15.

Flórgoðinn, Podiceps auritus, er eini íslenski varpfuglinn af goðaætt (Podicipedidae). Hann er sérstæður að byggingu og sérhæfður að vatnalífi. Aldrei fer hann á land, ekki einu sinni til þess að verpa, því hann byggir sér flothreiður. Vegna sérhæfingar sinnar er flórgoðinn viðkvæmur fyrir hvers konar röskun  á því votlendi sem hann byggir afkomu sína á.

Miklar breytingar hafa orðið á íslenska flórgoðastofninum hér á landi undanfarna áratugi. Á síðari hluta tuttugustu aldar var óttast um afdrif stofnsins, þegar flórgoðum hafði fækkað verulega og útbreiðsla dregist saman. Eftir það tók stofninn við sér á ný, sem varð til þess að setja skýringar á stofnhruni í nýtt samhengi. Sjónum var beint að vetrarstöðvum, sem voru að mestu leyti óþekktar.

Náttúrustofa Norðausturlands hóf að merkja flórgoða og festa á þá svokallaða dægurrita (e. geolocator) árið 2009 til þess að rannsaka farhætti og vetrarstöðvar. Hefur verkefninu verið haldið áfram með því að merkja nokkra fugla árlega síðan. Dægurritar safna upplýsingum um birtutíma og út frá þeim upplýsingum er hægt að reikna staðsetningu, náist merkið aftur. Alls hafa nú 46 flórgoðar verið merktir með dægurritum og hafa 15 þeirra endurheimst nú þegar.

Í erindinu verður fjallað um þær niðurstöður sem dægurritarnir hafa skilað fram að þessu. Hafa þær gjörbylt stöðu þekkingar varðandi farhætti og vetrarstöðvar flórgoða. Um leið hafa niðurstöðurnar vakið upp spurningar um tengsl við aðra stofna flórgoða við N-Atlantshaf.

Nýmerktur flórgoði
Mynd: Yann Kolbeinsson

Nýmerktur flórgoði. Dægurritinn er festur við plastmerki á vinstri fæti. Hefðbundið stálmerki er á hægri fæti.