7. febrúar 2007. Snorri Baldursson og Sigurður H. Magnússon: Hvaða erindi á Surtsey inn á Heimsminjaskrá UNESCO?

Snorri Baldursson
Mynd: Sigurður Stefán Jónsson

Snorri Baldursson

Sigurður H. Magnússon

Sigurður H. Magnússon

Snorri Baldursson plöntuerfðafræðingur og Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands fjalla um Surtsey og hvers vegna hún á erindi á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Surtseyjargosið 1963-1967 vakti heimsathygli, enda ekki á hverjum degi sem ný eyja rís úr sæ. Fyrir orðastað framsýnna manna var eyjan friðlýst þegar árið 1965 og heimsóknir og umferð almennings bönnuð. Æ síðan hefur aðgangur að eynni verið takmarkaður við vísindafólk og náttúruljósmyndara.

Fyrir rúmlega ári síðan ákváðu íslensk stjórnvöld að tilnefna Surtsey á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og fólu Náttúrufræðistofnun Íslands að undirbúa tilnefninguna.

Í tilnefningarskjalinu eru tíunduð þau atriði sem að mati stofnunarinnar og annarra sem að undirbúningi stóðu gera Surtsey að einstöku náttúrufyrirbæri á heimsvísu og tilraunastofu fyrir náttúrurannsóknir.

Í fyrirlestrinum verður farið yfir þessi atriði en þau eru m.a. eftirfarandi:

  • Tilurð nýrra eyja vegna neðansjávargosa eru sjaldgæf fyrirbæri á heimsvísu; gerast jafnaði aðeins um tvisvar sinnum á öld.
  • Engu neðansjávargosi fyrr eða síðar hefur verið lýst jafn vel í máli og myndum og Surtseyjargosinu.
  • Á Surtsey hefur gefist einstakt tækifæri til að rannsaka móbergsmyndun, þ.e. ummyndun gjósku í móberg, og áhrif jarðhita á þetta ferli.
  • Öldurofi eyjarinnar hefur verið nákvæmlega lýst og sýna þau gögn að hraði rofsins fer eftir því hvort fyrir er gjall, hraun eða móberg; með því að fóðra tölvulíkan á þessum gögnum má spá fyrir um framtíð eyjarinnar.
  • Neðansjávarrof smáeyjanna Syrtlings og Jólnis og neðansjávargígsins Surtlu má rekja af röð dýptarkorta og eru þau gögn einstök á heimsvísu.
  • Surtsey hefur verið kennslustofa í því hvernig plöntur og dýr nema land á nýju landi án þess að maðurinn komi þar við sögu.
  • Vistfræðirannsóknir á Surtsey hafa varpað nýju ljósi á þróun og framvindu gróður- og dýrasamfélaga á eyjum.
Loftmynd af Surtsey tekin 12. ágúst 2004.
Mynd: Lofmyndir ehf

Loftmynd af Surtsey tekin 12. ágúst 2004.