Gróðureldar í Norðurárdal

Flatarmál gróðurelda í Norðurárdal í Borgarfirði 18.-19. maí 2020
Mynd: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Kort af svæðinu sem brann í Norðurárdal 18.–19. maí 2020.

Dagana 18.–19. maí 2020 brann birkiskógur (Hólmaskógur og Mjóengisskógur) í Norðurárdal í Borgarfirði. Náttúrufræðistofnun Íslands fór á staðinn skömmu eftir eldana og mat gróðurskemmdir. Svæðið sem brann var 13,2 ha að flatarmáli, einkum birkiskógur.

Síðdegis þann 18. maí 2020 var tilkynnt um eld í skóglendi í Norðurárdal, vestan Norðurár, nokkru neðan við fossinn Glanna og rétt vestan Paradísarlautar. Á svæðinu á milli Grábrókarhrauns og Norðurár er gamalgróin birkiskógur sem heitir Mjóengisskógur, og norðar Hólmaskógur, og nýtur hann skjóls af hárri hraunbrúninni. Þegar eldurinn kviknaði var gróðursvörður mjög þurr eftir langa þurrkatíð en vindur var fremur hægur. Um 100 manns komu að slökkvistarfinu við afar erfiðar aðstæður því yfir mjög úfið hraun var að fara, auk þess sem skógurinn er þéttur og erfiður yfirferðar. Tekist hafði að slökkva eldinn um fjögurleytið aðfaranótt 19. maí. Líklegast þykir að kviknað hafi í af mannavöldum.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru á staðinn þann 26. maí í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu gróðureldsins og skoða skemmdir á gróðurfari. Mælingar sýna að svæðið er í heild 13,2 ha að flatarmáli, mestmegnis birkiskógur eða 11,3 ha. Einnig brann nokkuð svæði uppi á hraunbrúninni, meðal annars 1,1 ha hraunlendi (mosa- og lynghraunavist) með mosanum hraungambra ríkjandi, tæpur hálfur hektari syðst og um miðbik svæðisins var runnamýravist með gulvíði og gisnu birki og næst Norðurá brann tæpur hálfur hektari af graslendi. Fyrir utan brunna svæðið er skógur með fjölbreyttum undirgróðri, meðal annars gulvíði, sortulyngi, bláberjalyngi, krækilyngi, grösum og mosa og eru birkitrén um 2–5 m að hæð.

Birkiskógurinn (Hólmaskógur og Mjóengisskógur) sem brann í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Mynd: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Birkiskógurinn (Hólmaskógur og Mjóengisskógur) sem brann í Norðurárdal 18.–19. maí 2020. Ljósmynd tekin 26. maí 2020.

Stofnar birkitrjáa og undirgróður brunnu illa í gróðureldi í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Stofnar birkitrjánna brunnu margir illa og undirgróðurinn einnig.

Ólíkt er milli plöntuhópa og tegunda hvernig þeim reiðir af eftir bruna. Ef rætur trjáa hafa ekki eyðilagst eru rótarskot líkleg til að vaxa upp. Eins er hugsanlegt að það lifni út úr einhverjum greinum trjánna eins og hefur sést hjá birki eftir bruna annars staðar. Við skoðunina í maí var talið líklegt að töluverður hluti trjánna hefði drepist og hætta var talin á að mikið af undirgróðri væri eyðilagður og ekki margar tegundir sem myndu ná að vaxa upp aftur af rót. Til að mynda virtist lyng, gulvíðir og mosi hafa farið mjög illa. Bláberjalyng vex reyndar kröftuglega upp aftur af rót eftir gróðurelda ef eldurinn nær ekki mjög djúpt og einnig grös og starir.

Sviðnar birki- og gulvíðigreinar liggja í brunnum gróðursverði í Norðurárdal í Borgarfirði í maí 2020
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Sviðnar birki- og gulvíðigreinar liggja í brunnum gróðursverðinum.

Grasnálar stinga upp kollinum eftir gróðureld í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Mynd: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Grasnálar stinga kollinum upp úr sverðinum.

Tómt hreiður á brunna svæðinu eftir gróðureld í Norðurárdal 18.-19. maí 2020
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Tómt hreiður á brunna svæðinu.

Til að fylgjast með þróun svæðisins eftir brunann var farið aftur í Norðurárdal í ágúst 2020 og myndir teknar. Fróðlegt er að bera þær saman við myndirnar sem teknar voru strax eftir brunann í maí. Glöggt mátti sjá hvernig svæðið í heild var byrjað að jafna sig. Þó höfðu sum birkitré ekki lifað brunann af. Hjá öðrum lifnaði teinungur út frá rót og hjá enn öðrum voru neðstu greinarnar sviðnar en efstu greinarnar lifandi.

Gróður í birkiskógi í Norðurárdal í Borgarfirði sem brann í maí 2020. Myndin er tekin í ágúst.
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Þótt stofnar flestra birkitrjánna hafi farið illa í maí var algengt að rótin væri á lífi og mikið um endurvöxt upp af teinungum seinna um sumarið. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.

Gróður í birkiskógi í Norðurárdal í Borgarfirði sem brann í maí 2020. Myndin er tekin í ágúst.
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Hjá sumum birkitrjánum voru þó efstu greinarnar einnig lifandi. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.

Birkiskógurinn sem brann í Norðurárdal í maí 2020. Sami skógur í ágúst sama ár.
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Séð yfir hluta birkiskógarins sem brann í Norðurárdal í maí 2020. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.

Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Gulvíðirinn var einnig farin að vaxa aftur upp af rót í sumum tilfellum. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.

Gróður í birkiskógi í Norðurárdal í Borgarfirði sem brann í maí 2020. Myndin er tekin í ágúst.
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Teinungur hjá birki og ýmis undirgróður að vaxa upp eftir brunann en eftir standa lífvana stofnar trjánna. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.

Gróður í birkiskógi í Norðurárdal í Borgarfirði sem brann í maí 2020. Myndin er tekin í ágúst.
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Ýmis undirgróður tekur við sér eftir brunann s.s. geithvönn, blágresi, brennisóley og bláberjalyng. Hins vegar sást ekki tangur né tetur af t.d. sortulyngi eða krækilyngi. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.

Gróður í birkiskógi í Norðurárdal í Borgarfirði sem brann í maí 2020. Myndin er tekin í ágúst.
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Kröftugur endurvöxtur var í undirgróðrinum og reyrgresið algengt. Myndin er tekin 8. ágúst 2020.