Jarðhitalækir

Jarðhitalækir

V2.2

EUNIS-flokkun

C2.17 Thermal spring brooks.

Lýsing

Heitir og volgir lækir á jarðhitasvæðum, annars vegar náttúrulegt afrennsli háhitasvæða og hins vegar afrennsli hvera, lauga og volgra á lághitasvæðum. Vatnshiti og rafleiðni er hærri en í köldum lækjum á Íslandi. Iðustreymi er ríkjandi.

Vatnagróður

Lítt þekktur á landsvísu. Æðplöntur eru engar næst uppsprettunum þar sem vatn er heitast, en í heitum lækjum hefur fundist fergin (Equisetum fluviatile), laugabrúða (Callitriche stagnalis), smánykra (Potamo­geton berchtoldii), ármosi (Fontinalis antipyretica) og kransþörungar (Nitella spp.). Þörungagróður er aftur á móti mikill og mynda grænþörungar, kísilþörungar og blágrænubakteríur slýdræsur eða skánir á botni og við bakka.

Botngerð

Fjölbreytt; grýttur botn, sandur og leir. Botn lækja, einkum á háhitasvæðum, getur verið þakinn kísilútfellingum.

Efnafræðilegir þættir

Sýrustig (pH) í lækjum frá lághitasvæðum er svipað og í köldu straumvatni (pH 7–10). Vatn sem rennur frá háhitasvæðum hefur gjarnan lægra sýrustig (<pH 6) og er auk þess ríkt af uppleystum efnum, s.s. kísli, klór og brennisteini. Styrkur fosfórs (P) og niturs (N) er yfirleitt hærri en í köldum lækjum.

Miðlunargerð vatnasviðs

Finnast á flestum miðlunargerðum.

Fuglar

Sums staðar töluvert fuglalíf á láglendi, einkum að vetrarlagi; hrossagaukar (Gallinago gallinago), stokkendur (Anas platyrhynchos), urtönd (Anas crecca) og keldusvín (Rallus aquaticus) áður fyrr.

Útbreiðsla

Finnst á há- og láglendi. Háhitasvæðin eru innan virku gosbeltanna, en lághitasvæðin eru utan þeirra.

Verndargildi

Hátt.