Sagþangsfjörur

V1.34 Sagþangsfjörur

EUNIS-flokkun: A1.31 Fucoids on sheltered marine shores.

Lýsing

Sagþang þekur meira en þriðjunginn af fjörubeðinum en innan um er reytingur af klóþangi. Sagþangsfjörur eru sérstakt afbrigði af klóþangsfjörum; sagþang vex yfirleitt í láréttu belti í neðsta hluta fjörunnar, svipað og skúfþang, en við ákveðnar aðstæður þekur það nánast alla fjöruna. Lífríki sagþangsfjara er sennilega með fjölbreyttara móti og margar tegundir smávaxinna þörunga eru áberandi neðst í fjörunni. Sagþang þrífst best í skjóli og á fremur stöðugu undirlagi. Það er ágeng tegund, sem hefur líklega borist til landsins af mannavöldum (Coyer o.fl. 2006, Karl Gunnarsson o.fl. 2015). Fyrstu skráðar heimildir um það á Íslandi eru frá aldamótunum 1900 (Helgi Jónsson 1903). Undanfarna áratugi hefur sagþangið færst allverulega í aukana í fjörum suðvestanlands.

Fjörubeður

Klappir, stórgrýti, hnullungar.

Fuglar

Fuglalíf ekki kannað, líkist sennilega því sem er að finna í klóþangsfjörum.

Líkar vistgerðir

Klóþangsfjörur, bóluþangsfjörur og skúfþangsfjörur.

Útbreiðsla

Útbreiðsla sagþangs nær frá Vestmannaeyjum yfir í Hvalfjörð. Tegundin er mjög áberandi á vesturströnd Reykjaness þar sem hún vex í mjög breiðu belti neðarlega í fjörunni.

Verndargildi

Hátt.

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation Áberandi dýr – Conspicuous animals
Sagþang Fucus serratus Hrúðurkarl Semibalanus balanoides
Klóþang Ascophyllum nodosum Kræklingur Mytilus edulis
Sjóarkræða Mastocarpus stellatus Nákuðungur Nucella lapillus
Söl Palmaria palmata Mosadýrategund Electra pilosa
Steinskúfur Cladophora rupestris Mosadýrategund Flustrellidra hispida
Purpurahimna Porphyra umbilicalis Hveldýrategund Dynamena pumila
Hrossaþari Laminaria digitata Hveldýrategund Laomedea flexuosa
    Snúðormategund Spirorbis spp.

 

Opna í kortasjá – Open in map viewer

 

Heimildir

Coyer, J.A., Hoarau, G., Skage, M., Stam, W.T. og Olsen, J.L. 2006. Origin of Fucus serratus (Heterokontophyta; Fucaceae) populations in Iceland and the Faroes: a microsatellite-based assessment.  Eur. J. Phycol., 41(2): 235-246.

Helgi Jónsson 1903. The marine algae of Iceland. Phaeophyceae. Botanisk Tidsskrift 25. 141-195.

Karl Gunnarsson, Guðrún G. Þórarinsdóttir, Óskar Sindri Gíslason 2015. Framandi sjávarlífverur við Ísland. Náttúrufræðingurinn 85(1/2): 4-14.