Torfajökull

Svæðið er tilnefnt vegna vistgerða á landi og ferskvatnsvistgerða.

Torfajökull á Íslandskorti
Fjallahveravist
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Austur-Reykjadalir við Torfajökul.

Mörk

Svæðið afmarkast fyrst og fremst af fjallabálki þar sem víða er jarðhiti við yfirborð. Svæðið nær frá Stóra-Melfelli í norðri og suður að Útigönguhöfða. Vestan til nær svæðið að Rauðufossafjöllum og til austurs að Illakambi og Hólmsárbotnum.

Stærð

514,7 km2

Hlutfall lands: 97%
Hlutfall fersks vatns: 3%

Svæðislýsing

Háhitasvæðið, sem kennt er við Torfajökul, er það stærsta og öflugasta á landinu og er hveravirkni mikil á svæðinu. Landið liggur hátt, landslag er fjölbreytt og er svæðið fjöllótt, gilskorið og skriðurunnið. Stór hluti svæðisins er nú þegar friðaður sem Friðland að fjallabaki. Svæðið er vinsælt til útivistar og er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Laugavegurinn, ein fjölfarnasta gönguleið landsins, liggur þvert yfir svæðið frá Landmannalaugum í Álftavatn. Ummerki um rask eru einkum vegna vegslóða, göngustíga og fjallaskála. Afréttarbeit sauðfjár að sumri.

Forsendur fyrir vali

Jarðhitavistgerðir eru fjölbreyttar á svæðinu og setja allmikinn svip á það. Til staðar eru jarðhitavistgerðirnar fjórar og í þeim þrífast háplöntutegundirnar grámygla og naðurtunga sem einungis finnast við jarðhita. Töluvert yfirborðsvatn er á svæðinu sem er fremur sjaldgæft á háhitasvæðum. Víða eru því jarðhitalækir og er fjölbreytni þeirra mikil m.t.t. efna- og eðlisþátta og endurspeglast það í lífríki þeirra. Af öðrum mikilvægum vistgerðum finnst starungsmýravist á svæðinu.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Land Fjallahveravist 0,17 73
Land Hveraleirsvist 0,07 15
Land Móahveravist 0,01 4
Land Mýrahveravist 0,01 10
Ferskvatn Jarðhitalækir    

Ógnir  

Meginógn jarðhitavistgerðanna er vaxandi ágangur ferðamanna og uppbygging í ferðaþjónustu, einnig áform um jarðhitanýtingu.

Aðgerðir til verndar

Takmarka og afmarka þarf umferð gangandi fólks um svæðið. Takmarka baðferðir við núverandi náttúrulaugar. Vernda svæðið gegn jarðhitanýtingu til raforkuframleiðslu.

Núverandi vernd

Friðlýst svæði Flokkur friðlýsingar
Friðland að fjallabaki Friðland
Aðrar náttúruminjar Númer
Hekla 730
Grænifjallgarður 760
Emstrur og Fjallabak 761

Kortasjá

Torfajökull í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 26. maí 2020.