Búrgæra (Trogoderma angustum)

Útbreiðsla

Upprunnin í S-Ameríku og hefur dreifst þaðan sem meindýr til N-Ameríku, Evrópu, Asíu og N-Afríku. Víða í löndum M- og N-Evrópu.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður, Álftanes; einnig Vogar, Stokkseyri, Borgarnes, Akureyri og Eskifjörður.

Lífshættir

Búrgæra lifir hér eingöngu innanhúss og finnst einkum í eldhúsinnréttingum og matarbúrum. Fullorðnar bjöllur eru á stjái allt árið, en þær sjást þó í mestum fjölda á tímabilinu frá mars og fram undir mitt sumar. Mökun fer fram strax eftir að bjöllurnar hafa skriðið úr púpum og þær verpa síðan í hentuga fæðu fyrir afkvæmin að einum til tveim sólarhringum liðnum. Fjöldi eggja frá hverri kerlu er afar breytilegur, allt frá fáeinum upp undir hundrað og er fjöldinn háður hitastigi. Þau klekjast á tveim til þrem vikum við stofuhita en ná ekki að klekjast ef hiti fer undir 13°C.

Flestar lirfur hefja uppvöxtinn á vorin og við stofuhita er uppvaxtarhraðinn slíkur að ein kynslóð þroskast á ári. Hins vegar getur þroskatími lirfanna varað á bilinu 65–400 daga eftir hitastigi. Við 26°C nær búrgæran að þroska tvær kynslóðir á ári. Hitastig á bilinu 15–32°C dugar lirfunum til þroska en undir 15°C ná þær ekki að púpa sig. Þær eru fjarri því að vera rakaháðar og klára sig ágætlega við rakastig á bilinu 5–80%. Annars er kjörhitinn 24–26°C og hentugasta rakastig 35–45%.

Lirfurnar eru annars harðar af sér og geta lifa af hremmingar í langan tíma. Þess má t.d. geta að fullvaxin lirfa getur lifað í ár án fæðu, í –8°C frosti dögum saman og í –10°C í 5–6 klukkustundir. Því er vissast að keyra upp frostið, þegar frysting er notuð til að uppræta búrgærur úr varningi. Í uppvextinum hafa lirfurnar hamskipti allt að sjö sinnum og vilja hamir því safnast upp í skúffum og kirnum þar sem lirfur hafa vaxið upp í ró og spekt. Þær púpa sig inni í síðasta lirfuhamnum og varir púpustigið í 2–3 vikur við stofuhita.

Lirfurnar nærast á fæðu bæði plöntukyns og dýrakyns. Fullorðnar bjöllur nærast hins vegar ekki en brenna fituforða sem þeim fylgir frá lirfustiginu. Við stofuhita lifa bjöllurnar í 2–3 vikur. Þær þola hitasveiflur vel og geta jafnvel lifað af nokkurt frost.

Ef búrgæra kemst á skrið getur hún reynst umtalsverður staðvaldur í matvöru af ýmsu tagi. Einnig getur hún lagst á textílvörur og skinnband gamalla bóka. Náttúrugripasöfn eru í verulegri hættu komist búrgærur í gripina. Það er ekki óalgengt að fjöldinn verði mikill á heimilum þar sem ekki er brugðist við í tíma. Bjöllurnar eru vel fleygar, leita í ljós og safnast gjarnan fyrir í gluggum.

Almennt

Búrgæra fannst fyrst hérlendis í Reykjavík árið 1982. Í Evrópu fannst hún fyrst í Póllandi 1921 og í Þýskalandi tíu árum síðar. Á Norðurlöndum uppgötvaðist tegundin fyrst í Finnlandi 1959 og í kjölfarið í nágrannalöndunum. Búrgæran festi sig fljótt í sessi á höfuðborgarsvæðinu en hefur dreifst hægt út á landsbyggðina. Þar fannst hún í Vogum 1996, á Stokkseyri 2000, Akureyri 2002 og í Borgarnesi 2005.

Búrgæra (3,5 mm) er með minni gærubjöllunum. Bjöllurnar eru misstórar, sem byggist á því að kvendýr eru mun stærri en karldýr en kvendýrin eru áþekk hamgærum að stærð. Fullorðin bjalla er auðþekkt af einkennandi flekkóttu litmynstri, myndað af ljósum grófum hárum sem eru mun lengri en önnur hár á skjaldvængjum. Höfuð og hálsskjöldur eru hvíthærð. Á dumbrauðum gljáandi og snögghærðum skjaldvængjum eru þrír áberandi paraðir hvíthærðir flekkir, sem mynda nánast þrjú ljós belti yfir skjaldvængina. Lirfan er einkar lík lirfu hamgærunnar og verður helst greind frá henni á færri smáaugum.

.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Fauna Europaea. Trogoderma angustum. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=413664 [skoðað 30.3.2011}

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 30. mars 2011, 24. ágúst 2018

Biota

Tegund (Species)
Búrgæra (Trogoderma angustum)