Frjókornamælingar í rauntíma aðgengilegar á vefnum

Niðurstöður sjálfvirks frjógreiningamælis sem settur var upp á Akureyri í lok júlí eru nú aðgengilegar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Staðbundinn styrkur frjókorna er nú mældur allan sólarhringinn með kerfi sem byggist á stafrænni heilmyndun (e. holography), þar sem þrívíddarmyndir eru útbúnar með leysigeisla, og greining frjókorna fer fram með notkun gervigreindar.

Frjógreiningamælirinn heitir SwisensPoleno Mars, er frá fyrirtækinu Swisens, og eru niðurstöður frá tækinu notaðar við gerð frjókornaspár fram í tímann og jafnframt eru rauntímaupplýsingar sýndar á grafi á vef stofnunarinnar sem sýnir styrk birki- og grasfrjóa og uppfært er á klukkustundarfresti.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur séð um frjókornavöktun í meira en þrjá áratugi á tveimur stöðum, fyrst í Reykjavík (síðar Garðabæ) og á Akureyri. Gögnin eru varðveitt í evrópska frjókornagagnagrunninum EAN (European Aeroallergen Network) en gögn úr honum eru birt almenningi á vefnum Polleninfo.

Nánari upplýsingar um frjómælingar