Umfangsmikil sjálfsáning stafafuru á Norðurlandi

Niðurstöður rannsókna á sjálfsáningu stafafuru í kringum tvo skógarreiti á Norðurlandi sýna að flatarmál sjálfsáinna stafafurusvæða var um tvöfalt stærra en upprunalegir skógarreitir á báðum stöðum. 

Í apríl 2022 hlaut Náttúrufræðistofnun Íslands styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að kortleggja svæði á Norðurlandi þar sem stafafura sáir sér út frá skógrækt og meta umfang sjálfsáningarinnar. Verkefnið var unnið nú í sumar þar sem rannsökuð voru svæði umhverfis skógarreiti við Laugaland í Hörgárdal og Miðhálsstaði í Öxnadal.  

Á Laugalandi var meðalþéttleiki stafafuru á sjálfsáðu svæði utan skógarmarka 221 planta/ha. Skógurinn reiknaðist 69,8 ha að flatarmáli þegar lína var dregin um ystu punkta skóglendisins. Svæðið þar sem stafafura hefur sáð sér reiknast hins vegar 133,5 ha að flatarmáli þegar lína er dregin um ystu punkta, sem er 91% stærra en upphaflega skóglendið. Mesta fjarlægð sjálfsáinnar furu frá skógarmörkum var 1.126 metrar. 

Á Miðhálsstöðum var meðalþéttleiki stafafuru 22,2 plöntur/ha á sjálfsáðu svæði utan skógarmarka. Skógurinn reiknaðist 91,4 ha að stærð þegar lína var dregin um ystu punkta skóglendisins. Stærð svæðisins þar sem stafafura hefur sáð sér reiknast 186,5 ha þegar lína er dregin um ystu punkta, en sú stækkun nemur um 104%. Mesta fjarlægð sjálfsáinnar furu frá skógarmörkum var 1.567 metrar. 

Á báðum stöðum kom í ljós að sjálfsáning stafafuru átti sér einkum stað í stefnu ríkjandi vindátta. 

Verkefnið var unnið af Brynjólfi Brynjólfssyni nema við Landbúnaðarháskóla Íslands en Pawel Wasowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands var ábyrgðarmaður verkefnisins.