Alþjóðlegur dagur jarðbreytileikans

Í dag, 6. október 2022, er alþjóðlegum degi jarðbreytileikans fagnað í fyrsta sinn. Á aðalráðstefnu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem haldin var í nóvember 2021 var samþykkt að þessi dagur yrði í framtíðinni tileinkaður jarðfræðilegum fjölbreytileika, eða jarðbreytileika (e. geodiversity).

Jarðbreytileiki er yfirgripsmikið hugtak sem nær yfir lífvana náttúru (e. abiotic nature), það er að segja allar jarðminjar eins og berg, steindir, steingervinga, jarðveg, vatn, landmótun og virk ferli sem móta landslag.

Á Íslandi er jarðbreytileiki mikill og tengist hann fyrst og fremst eldvirkni og jöklum, ásamt samspili þar á milli. Þetta endurspeglast til dæmis í víðáttumiklum móbergssvæðum, móbergshryggjum og móbergsstöpum sem myndast hafa við eldvirkni undir jöklum ísaldar. Ísland er einn af fáum stöðum á jörðinni þar sem sjá má rekbelti á landi en það sést í löngum gossprungum (gígaröðum og móbergshryggjum), gliðnunarsprungum og sigdölum (eins og t.d. á Þingvöllum). Ísland væri þó ekki til nema fyrir tilverknað „heita reitsins“ sem í dag er staðsettur undir Vatnajökli, við eldstöðvakerfið Bárðarbungu. Heitur reitur undir Íslandi veldur því að hér er eldvirkni meiri en gengur og gerist á rekbeltum, sem varð til þess að land reis úr hafi á miðjum Norður-Atlantshafshryggnum.

Segja má að jarðbreytileiki sé undirstaða tilveru okkar. Grunnur vistkerfa byggist að stórum hluta á jarðbreytileika og í hann sækir maðurinn þau efni sem hann þarf til að byggja upp samfélög sín, tæki og tól, auk skrautmuna.

Jarðbreytileiki er að mörgu leyti hliðstætt hugtak við lífbreytileika (líffræðilega fjölbreytni) en til samans ná hugtökin tvö yfir alla þætti náttúrunnar og mynda náttúrulegan breytileika. Hins vegar eru, enn sem komið er, engir alþjóðlegir samningar til um jarðbreytileika, sjálfbæra nýtingu hans eða vernd. Slíkum samningum þarf að koma á sem fyrst þar sem ofnýting jarðrænna auðlinda eykst ár frá ári.

Í dag verður jarðbreytileikanum fagnað víða um heim með margskonar uppákomum sem sjá má á vefnum Geodiversity Day.

Gleðilegan dag jarðbreytileikans!