Holdafar rjúpna haustið 2022

Holdafar rjúpna nú í haust er með ágætum. Þó stefnir ferillinn fyrir holdastuðul fullorðinna fugla niður á við og þeir eru í lakari holdum en í fyrra. Enginn munur var á holdafari unga 2021 og 2022. Þetta sýna mælingar á fuglum sem veiddir voru á Norðausturlandi fyrstu átta daga nóvembermánaðar.

Fylgst hefur verið með holdafari rjúpna síðan 2006. Eitt af því sem komið hefur í ljós er að mikill munur er á holdafari rjúpna eftir árum; ungfuglar eru að jafnaði í lakari holdum en fullorðnir fuglar en breytingar á milli ára eru þær sömu hjá báðum aldurshópum. Þessi mælikvarði á „hreysti“ rjúpunnar endurspeglar eitthvað sem fuglarnir hafa reynt í lífi sínu mánuðina á undan, það er yfir sumar og haust.

Í nóvember var rannsakaður 251 fugl sem skotinn var 1.–8. nóvember. Flestir fuglarnir veiddust í Þingeyjarsýslum en sjö fuglar í Öxnadal í Eyjafirði. Allir fuglarnir voru aldurs- og kyngreindir á ytri einkennum og vigtaðir, auk þess sem þrjú stærðarmál voru tekin: hauslengd, ristarlengd og vænglengd. Einnig var sarpur tæmdur ef fæða var í honum og innihald vegið.

Gerð var tölfræðigreining á öllu gagnasafninu 2006–2022 (3637 fuglar) og sýna niðurstöður marktækan mun á holdastuðli á milli ára og á milli aldurshópa. Enginn munur var á kynjum. Marktæk samvirkni var á milli ára og aldurs og ára og kyns, það er almennu reglurnar um að ungar væru í lakari holdum en fullorðnir fuglar og að ekki væri munur á holdafari eftir kynjum voru ekki algildar. Sum ár var ekki munur á holdafari eftir aldri og eins var sum ár munur á holdafari eftir kyni. Einnig var samvirkni á milli kyns og aldurs marktæk og þá þannig að aldurshrif voru meiri fyrir kvenfugla en karlfugla.

Breytingar á holdastuðli eftir aldri fugla 2006-2022 héldust mjög vel í hendur á milli ára. Helsta frávikið var 2018 en þá skoruðu fullorðnir fuglar mjög lágt. Samanborið við fyrri ár var holdafar rjúpna nú í haust með ágætum. Ferillinn fyrir holdastuðul fullorðinna fugla stefnir niður á við og fullorðnir fuglar eru nú í lakari holdum en í fyrra. Enginn munur var á holdafari unga 2021 og 2022.

Minnisblað til áhugamanna um rjúpnarannsóknir