Villtir fuglar hafa áhrif á útbreiðslu inflúensu A á norðurslóðum

Í nýútkominni fræðigrein sem birtist í vísindatímaritinu Molecular ecology er greint frá því að inflúensuveirur A dreifist landlægt með stofnum villtra fugla sem ferðast árstíðabundið milli vetrarstöðva á suðlægum breiddargráðum til varpsvæða á norðurslóðum. 

Sett var fram sú tilgáta að norðurheimskautið og kaldtempruðu svæðin virki sem vistfræðilegur drifkraftur fyrir flutning inflúensuveiru A milli heimsálfa og þróun nýrra afbrigða veirunnar vegna mikils þéttleika ólíkra fuglastofna á varptíma, bæði farfugla og staðfugla. 

Á Íslandi tengjast farleiðir fugla sem eiga heimkynni við austanvert Atlantshaf og vestanvert hafið í Norður-Ameríku. Þar gefst einstakt tækifæri til að rannsaka hvað einkennir veiruflutning milli austur- og vesturhvels jarðar. Lagt var mat á tengingu Íslands við nálæg svæði og skoðað var hvernig inflúensusmit á milli tegunda og myndun nýrra afbrigða hefur áhrif á landfræðilega útbreiðslu veirunnar. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að flutningur inflúensuveiru A á norðurslóðum og kaldtempruðu svæðunum endurspeglar ferðalög villtra fugla um jaðar heimskautssvæðisins, einkum stuttar flugleiðir milli nærliggjandi svæða frekar en langflug yfir norðurskautið. Á Íslandi mætast flutningsleiðir veirunnar milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku, í samræmi við farflug villtra fugla frá meginlandi Evrópu til Norðaustur-Kanada og Grænlands. Þrátt fyrir að útbreiðsluhraði veirunnar sé svipaður hjá ólíkum fuglahópum á Íslandi gegna máfar stóru hlutverki í flutningsferlinu.  

Niðurstöðurnar geta komið að gagni við áætlanagerð og eftirlit með fyrirsjáanlegum og árvissum inflúensufaröldrum í tengslum við lýðheilsu almennings. 

 

Greinin er öllum opin á netinu:  

Gass, J.D. Jr, R.J. Dusek, J.S. Hall, G.T. Hallgrimsson, H.P. Halldórsson, S.R. Vignisson, S.B. Ragnarsdottir, J.E. Jónsson, S. Krauss, S-.þ Wong, X-F. Wan, S. Akter, S. Sreevatsan, N.S. Trovão, F.B. Nutter, J.A. Runstadler og N.J. Hill 2022. Global dissemination of influenza A virus is driven by wild bird migration through arctic and subarctic zones. Molecular ecology, 00: 1–16. DOI: 10.1111/mec.16738