Surtseyjarfélagið 60 ára og aðalfundur haldinn

Aðalfundur Surtseyjarfélagsins fór fram þann 2. apríl 2025 í húsi Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti í Garðabæ. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, auk fræðsluerinda um rannsóknir í eynni. Inntaka nýrra félaga fer fram á aðalfundi og að þessu sinni bættust sextán nýir félagar í hópinn. 

Í tilefni 60 ára afmælis félagsins tilnefndi stjórn þess þrjá félaga til að hljóta heiðursnafnbót fyrir framlag sitt til rannsókna í Surtsey og störf í þágu félagsins. Þau sem hlutu nafnbótina heiðursfélagi Surtseyjarfélagsins eru: 

  • Unnur Skúladóttir fiskifræðingur og einn stofnfélaga félagsins árið 1965, sem sinnti leiðangursstjórn og rannsóknum í hafi við eyna
  • Erling Ólafsson skordýrafræðingur, sem vann rannsóknir í Surtsey um áratugaskeið 
  • Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur og leiðangursstjóri til margra ára 

Þau bætast þar með í hóp heiðursfélaga, en áður hafa fimm félagar hlotið þessa nafnbót.

Kaflaskipti urðu í stjórn félagsins þegar Hallgrímur Jónasson lét af embætti eftir sextán ár sem formaður. Við formennsku tók Hólmfríður Sigurðardóttir, líffræðingur og umhverfisgyðja hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún er þriðji formaður félagsins frá stofnun þess og jafnframt fyrsta konan til að gegna því hlutverki. Á fundinum var Hallgrími og öðru fráfarandi stjórnarfólki þakkað fyrir farsælt starf í þágu félagsins og ný stjórn sett til starfa. 

Að loknum aðalfundarstörfum fluttu Karl Gunnarsson, sjávarlíffræðingur við Hafrannsóknarstofnun, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, erindi um rannsóknir sínar í Surtsey.

Fundurinn var vel sóttur, bæði af félagsmönnum og öðru áhugafólki, bæði í Urriðaholti og á netinu.

Nánari upplýsingar um starfsemi Surtseyjarfélagsins má finna á vef félagsins.