Námur

Námuvinnsla er umfangsmikil atvinnugrein á Íslandi enda eru jarðefni, hvoru tveggja setlög og berg, mikilvæg við ýmiss konar framkvæmdir. Með tilkomu stórtækra vinnuvéla um miðja síðustu öld jókst námuvinnsla mikið í nálægð þéttbýlis. Jarðefnin eru meðal annars notuð við vegagerð í dreifbýli og gatnagerð í þéttbýli, í húsbyggingar sem steypuefni og sem fyllingarefni í grunna, gerð landfyllinga og við stíflu- og hafnargerð. Þá má einnig nefna grjótvarnir við sjó, fallvötn, veituskurði og uppistöðulón.

Á vefnum namur.is á  má finna nauðsynlegar upplýsingar um undirbúning, skipulag efnistöku og leyfisveitingar.

Lang mestur hluti efnisnáms á Íslandi fer fram í jarðgrunni (um 90%). Jarðgrunnsnámur eru mikilvægustu námur landsins og hefur efnistaka verið mest í fornum malarhjöllum og áreyrum.

Sandur og möl

Sand- og malarnámur hérlendis eru af mörgum gerðum og stærðum. Þær eiga það sameiginlegt að þar er unnið eftirsótt jarðefni af háum gæðum, sem meðal annars er notað í steypuefni, burðarlag í vegi og sem frostfrítt fyllingarefni. Mikilvægustu námurnar hafa til skamms tíma verið í fornum strandmyndunum, eins og í malarhjöllum sem mynduðust við hærri sjávarstöðu í lok ísaldar, og eru þær yfirleitt víðáttumiklar og efnismiklar. Mikil efnisvinnsla áratugum saman hefur hins vegar gengið mjög á sumar þeirra og til dæmis eru þær að mestu horfnar næst höfuðborgarsvæðinu. Efnisvinnsla úr þessum setmyndunum er ekki sjálfbær og því mikilvægt að huga að verndun þeirra.

Sjávarbotn

Nokkuð er um að sandi og möl sé dælt upp af sjávarbotni. Stórvirkasta efnistakan af þessu tagi fer fram á suðvesturhorni landsins, einkum í Faxaflóa og Hvalfirði. Efnið er aðallega notað sem byggingarefni.

Árfarvegir

Mikið efni er unnið úr ýmiss konar árseti. Algengast er að efnistakan fari fram á eyrasvæðum þar sem kornastærð efnisins er breytilegust en efni er einnig tekið úr árkeilum, farvegi og öðrum stöðum. Um er að ræða gæðaefni sem hvoru tveggja er notað til vegagerðar og margvíslegra framkvæmda í þéttbýli.

Jökulruðningur

Mikill hluti efnis til vegagerðar er unninn úr jökulruðningi og sennilega eru flestar námur á landinu, gamlar og nýjar, með þessu jarðefni. Laus jökulruðningur er ódýr í vinnslu og hentar ágætlega sem fyllingarefni þar sem ekki eru gerðar miklar kröfur til efnisins, til dæmis í undirbyggingu vega og í ýmiss konar landfyllingar sem þurfa ekki að vera frostfríar. Þá þekkist það einnig að möl og sandur séu þvegin út úr jökulruðningi til notkunar sem fylliefni í steypu.

Berghlaup

Slitlag á malarvegi er stundum unnið úr berghlaupum. Þá er blandað saman grjótmylsnu, sem fæst úr möluðum og uppbrotnum hraunlögum berghlaupsins, og rauðum og leirríkum millilögum. Það þykir góð samlíming í þessu efni og ef vel heppnast getur slitlagið á veginum orðið nánast rennislétt. Ókostur er að í mikilli bleytu getur slitlagið orðið töluvert hált og aurkennt.

Gígar

Umfangsmikil vinnsla á gjalli úr gígum (þar með talið gervigígum) fór fram á árum áður og olli hún miklum náttúruspjöllum, til dæmis í Rauðhólum í Reykjavík. Samkvæmt heimild í lögum um náttúruvernd hefur svona námuvinnsla verið nær stöðvuð í dag.

Vikur

Á tímabili var töluverð vinnsla á Hekluvikri í nágrenni Búrfells og Þjórsár til útflutnings vegna vegagerðar. Vinnslunni hefur nú verið hætt en vikurinn er enn unninn sem undirlag í tengslum við ræktun í gróðurhúsum. Þá var einnig nokkur vinnsla á vikri og gjalli til léttsteypugerðar við Snæfellsjökul og við Mývatn en er nú hætt.

Efnisvinnsla úr berggrunni hefur alltaf verið nokkur hérlendis og á síðustu árum hefur hún aukist til muna. Það er vegna þess að jarðgrunnsnámum hefur fækkað verulega í nálægð þéttbýlis því efnið í þeim er uppurið en á sama tíma er áfram þörf á jarðefnum vegna framkvæmda.

Klappir

Sífellt verður meira um að grjótnám í klöpp sé stundað á þann hátt að berg er sprengt og mulið niður í ákveðna kornastærð: sand eða möl. Það berg sem unnið er þennan hátt, hefur verið valið til grjótnáms vegna þess að það er bæði sterkt og slitþolið og það er sem dæmi notað sem steypuefni, í slitlag og burðarlag á þjóðvegi og til gatnagerðar í þéttbýli.

Talsvert hefur einnig verið um stórtækt grjótnám vegna vinnslu stórgrýtis til hafnar- og stíflugerðar, við gerð grjótvarnar við uppistöðulón og veituskurði eða til bakkavarna við straumhörð vatnsföll þar sem mikið rof er.

Þá má nefna að grjótnám í klöpp er meðal annars stundað í stuðlabergsnámum til legsteinagerðar og vinnslu annarra bautasteina. Þá þekkist það að gólfflísar og veggklæðningarefni hafi verið unnið úr íslensku bergi.

Hraun

Þar sem vegir hafa verið lagðir um hraun hefur það tíðkast að gjallkarga er ýtt af hraunyfirborði meðfram veglínu og hann notaður í veginn. Þessi vinnsla hefur tekist misvel í gegnum árin en nú á tímum er reynt að valda sem minnstu óþarfa raski á yfirborði hraunanna. Hraun og gígar njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Móberg

Í móbergsfjöllum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru ýmiss konar jarðefnanámur og á miðhálendinu hafa margar námur verið opnaðar í tengslum við virkjanaframkvæmdir. Sumar þeirra eru mjög stórar og talsvert áberandi í landslagi. Í námunum er efni úr bólstrabergi, þursabergi og gjallkenndu túffi sprengt, ýtt eða grafið burt. Efni sem unnið er úr föstu bergi er meðal annars nýtt til hafnagerðar og rofvarna við strönd á árfarvegi. Einnig færist það í vöxt að grjót sé malað til annarra nota, til dæmis til vegagerðar.

Málmar

Gull og aðrir eðalmálmar finnast í nokkrum mæli hér á landi, djúpt í rótum fornra megineldsstöðva. Leit af gulli og öðrum málmum var stunduð af fullri alvöru af og til alla síðustu öld og í dag er jafnvel áformað að halda henni áfram á ákveðnum svæðum.

Brennisteinn

Frá 14.–15. öld og fram á miðja 19. öld var brennissteinsvinnsla talsvert stunduð hér á landi. Hún þótti arðbær, sérstaklega þegar ófriður var í Evrópu, en brennisteinninn var fluttur til útlanda og notaður til púður og sprengiefnisgerðar. Þessi vinnsla var nokkuð erfið en brennisteinsútfellingum var safnað saman á yfirborði háhitasvæða, til dæmis í Krýsuvík, við Brennisteinsfjöll, á Þeistareykjum, við Námaskarð, í Kröflu og Fremri-Námum. Framfarir í vinnslu brennisteins erlendis með minni tilkostnaði ruddu að lokum íslenska brennisteininum út af markaðnum.

Silfurberg

Á árum áður var silfurberg unnið í Helgustaðanámu í Reyðarfirði og í Hoffellsdal í Hornafirði. Silfurberg er steind sem fellur út úr jarðhitavatni djúpt í rótum jarðhitakerfa og hefur þann eiginleika að tvíbrjóta ljós. Í byrjun 20. aldar var það notað í ýmiss konar ljóstæki, til dæmis bergfræðismásjár. Gerviefni hafa fyrir löngu ýtt því af markaðnum og er Helgustaðanáma nú friðuð sem náttúruvætti.

Námu- og efnisvinnsla í jarðlögum af lífrænum uppruna hefur verið stunduð hérlendis í nokkrum mæli.

Kísilgúr

Á árum áður var kísilgúr unninn af botni Mývatn en þar var seti dælt upp sem innhélt mikið magn kísilþörungaskelja. Kísilgúrvinnslu var hætt árið 2004.

Skeljasandur

Um skeið var skeljasandsvinnsla stunduð af botni Faxaflóa og var kalk úr sandinum notað við gerð sements. Þessari vinnslu hefur verið hætt.

Mór

Á fyrri öldum var stunduð mikil mótekja úr mýrum og var mórinn þurrkaður til eldsneytis. Íslenskur mór hentar ekki til vinnslu með vélum, þar sem hann inniheldur meðal annars ösku- og lurkalög. Þannig varð mótekja hér á landi aldrei af þeirri stærðargráðu sem þekkist erlendis. Nú á tímum er einhver mótekja stunduð og er mórinn annars vegar notaður við reykingu matvæla og hins vegar við gerð gróðurmoldar.

Surtarbrandur

Á tímum fyrri og seinni heimstyrjaldar, þegar lítið var um flutning kola til landsins, átti sér stað nokkur námuvinnsla í surtarbrandslögum og var surtarbrandurinn notaður til eldsneytis. Íslenski surtarbrandurinn er afbrigði af brúnkolum en um er að ræða leifar af fornum koluðum trjábolum og mó í millilögum blágrýtismyndunarinnar. Surtarbrandsnámur voru til dæmis í Stálfjalli yst á Barðaströnd, í Bolungarvík, við Botn í Súgandafirði, á Tjörnesi, í Jökulbotnum í Reyðarfirði og víðar. Íslenskur surtarbrandur þótti lélegur eldiviður og lagðist notkun hans fljótt af þegar erlend kol tóku aftur að berast til landsins.

Jarðolía og jarðgas

Íslensk stjórnvöld binda miklar vonir við að jarðolía eða jarðgas finnist innan efnahagslögsögu landsins. Árið 2012 gáfu þau út leyfi fyrir rannsóknum og vinnslu kolvetnis á svokölluðu Drekasvæði, norðaustur af Íslandi. Tíminn mun leiða í ljós hvort eitthvað verður af jarðefnavinnslu þar í framtíðinni.