Trjáholur

För eftir trjáboli, svonefndar trjáholur, eru allvíða þekktar í tertíera basaltstaflanum, en hafa ekki verið kortlagðar kerfisbundið. Þegar hraun rann frá eldstöð yfir skógi vaxið land féllu trén um koll en stundum stóðu þau keik eftir. Hraunkvikan umlukti trjábolinn sem brann oftast upp til agna og skildi eftir sig trjáholu. Seinna hafa sumar slíkar holur fyllst þegar eldumbrot endurtóku sig nærri holunni og bergkvika náði að þrengja sér inn í farið eftir trjábolinn. Þetta má sjá í Skriðnafellsnúpi á Barðaströnd og ein basaltafsteypa af trjábol þaðan er varðveitt í steingervingasafni NÍ, sjá mynd hér fyrir neðan. Blágrýtismyndunin á þessum slóðum er 10-12 milljón ára gömul. Á þeim tíma uxu á Íslandi fjölskrúðugir lauf- og barrskógar, einna líkastir þeim sem nú vaxa í suðausturhluta Bandaríkjanna. Afsteypan er límd saman úr 330 basaltbrotum og vitnar um allstórvaxið tré, en ummál bolsins er 106 cm.

Í aðrar holur hafa holufyllingar (t.d. kvarts eða kalsít) safnast og enn aðrar standa enn eftir tómar. Einna þekktastur fundarstaður trjáhola er í Norðurárdal, þar sem heitir Kotagil og er vinsæll viðkomustaður ferðamanna á leið um Norðurland. Þegar staðið er á gömlu brúnni yfir gilið, má sjá ef vel er að gáð, nokkrar holur neðst í hraunlögum tertíera basaltstaflans.

Trjáhola
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Trjáholan í Stekkjaborg í landi Keldudals í Hegranesi. Undir hraunlaginu sést í rautt millilag sem er forn jarðvegur sem tréð hefur vaxið í þegar það féll undan þunga hraunstraumsins. Eftir stendur far trjábols sem var tæplega hálfur metri í þvermál.

Trjábolur
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Afsteypa af trjábol frá Skriðnafellsnúpi á Barðaströnd

Í eftirtöldum greinum má fræðast meira um afsteypur og trjáholur:

  • Magnús Á. Sigurgeirsson og Sveinn P. Jakobsson 1997. Trjábolaafsteypur í Skriðnafellsnúpi á Barðaströnd. Náttúrufræðingurinn 67, 33–43.
  • Sigurður Þórarinsson 1966: Sitt af hverju frá síðastliðnu sumri. Náttúrufræðingurinn 36, 35–47. Ath. í greininni er Kotagil ranglega nefnt Valagil.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |