Jarðhitalækir

V2.2

EUNIS-flokkun

C2.17 Thermal spring brooks.

Jarðhitalækir
Mynd: Jón S. Ólafsson

Hverasvæðið við Brúarreyki í Borgarfirði er lághitasvæði. – Thermal spring brook at a low temperature geothermal area in western Iceland.

Jarðhitalækir
Mynd: Jón S. Ólafsson

Jarðhitalækur í 1050 m h.y.s. í Vonarskarði norðvestan við Bárðarbungu. – Thermal spring brook at a high temperature geothermal area in the central highlands, northwest of glacier Vatnajökull.

Lýsing

Heitir og volgir lækir á jarðhitasvæðum, annars vegar náttúrulegt afrennsli háhitasvæða og hins vegar afrennsli hvera, lauga og volgra á lághitasvæðum. Vatnshiti og rafleiðni er hærri en í köldum lækjum á Íslandi. Iðustreymi er ríkjandi.

Vatnagróður

Lítt þekktur á landsvísu. Æðplöntur eru engar næst uppsprettunum þar sem vatn er heitast, en í heitum lækjum hefur fundist fergin (Equisetum fluviatile), laugabrúða (Callitriche stagnalis), smánykra (Potamo­geton berchtoldii), ármosi (Fontinalis antipyretica) og kransþörungar (Nitella spp.). Þörungagróður er aftur á móti mikill og mynda grænþörungar, kísilþörungar og blágrænubakteríur slýdræsur eða skánir á botni og við bakka.

Botngerð

Fjölbreytt; grýttur botn, sandur og leir. Botn lækja, einkum á háhitasvæðum, getur verið þakinn kísilútfellingum.

Efnafræðilegir þættir

Sýrustig (pH) í lækjum frá lághitasvæðum er svipað og í köldu straumvatni (pH 7–10). Vatn sem rennur frá háhitasvæðum hefur gjarnan lægra sýrustig (<pH 6) og er auk þess ríkt af uppleystum efnum, s.s. kísli, klór og brennisteini. Styrkur fosfórs (P) og niturs (N) er yfirleitt hærri en í köldum lækjum.

Miðlunargerð vatnasviðs

Finnast á flestum miðlunargerðum.

Fuglar

Sums staðar töluvert fuglalíf á láglendi, einkum að vetrarlagi; hrossagaukar (Gallinago gallinago), stokkendur (Anas platyrhynchos), urtönd (Anas crecca) og keldusvín (Rallus aquaticus) áður fyrr.

Útbreiðsla

Finnst á há- og láglendi. Háhitasvæðin eru innan virku gosbeltanna, en lághitasvæðin eru utan þeirra.

Verndargildi

Hátt.

Útbreiðslukort jarðhitalækir

Útbreiðsla jarðhitalækja. Lengd þeirra er óþekkt, en þekkt jarðhitasvæði hafa verið metin m.t.t. tilvistar jarðhitalækja. Matið byggir á ljósmyndum úr rannsóknum á jarðhitasvæðum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og þekju fyrir straumvötn sem er fengin frá Veðurstofu Íslands. Hér er sýnd dreifing jarðhitafláka þar sem talið er að straumvatn renni. – The total length of thermal spring brooks has not been investigated. An estimation has been made about the probability of thermal spring brooks being present at areas with geothermal activity. Here the total coverage of those geothermal areas is shown.

Opna í kortasjá