Hvalfjörður

Svæðið er tilnefnt vegna fjöruvistgerða og fugla.

Hvalfjörður á Íslandskorti
Innanverður Hvalfjörður, Þyrilsnes fyrir miðju
Mynd: Arnþór Garðarsson

Botnsvogur í Hvalfirði.

Mörk

Hvalfjörður ásamt hólmum og fjörum, frá botni og út að Grundartanga að norðan og Hvalfjarðareyrar að sunnan.

Stærð

75,3 km2

Hlutfall lands: <1%
Hlutfall fjöru: 11%
Hlutfall sjávar: 88%
Hlutfall fersks vatns: <1%

Svæðislýsing

Fremur djúpur fjörður, sem gengur inn af Faxaflóa, með lífríkum grunnum vogum og víðáttumiklum leirum. Brimasemi á svæðinu er lítil inn eftir firðinum frá Hvaleyri í suðri að Saurbæjarvík í norðri, en þar fyrir vestan er brimasemin meiri. Á svæðinu er stunduð útivist. Fjaran við Fossá er vinsæl til kræklingatínslu, æðardúntekja er víða og landbúnaður á nærliggjandi jörðum. Mikil sand- og malartekja er yst og lítils háttar fiskveiðar. Verksmiðjur eru við mörk svæðisins á Grundartanga og vaxandi byggð sumarbústaða og heilsárhúsa er við sunnanverðan Laxárvog.

Forsendur fyrir vali

Fjörulengjan sem heild skartar mjög fjölbreytilegum vistgerðum, einkum kræklingaleirum ásamt allstórri kræklinga- og sölvaóseyri við Fossá. Mjög víða eru tiltölulega stórar skera- og sandmaðksleirur. 

Mikið fuglalíf árið um kring og telst það alþjóðlega mikilvægt fyrir fargestina margæs og rauðbrysting. Hið sama á við um vetrargestina flórgoða og sendling. Eins er mikið af tjaldi árið um kring, einkum þó á vetrum.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Fjara Kræklinga- og sölvaóseyrar 0,12 22
Fjara Kræklingaleirur 0,66 7
Fjara Sandmaðksleirur 3,53 2
Fjara Skeraleirur 0,50 22

Fuglar

Forgangstegundir far- og vetrargesta
Tegund  Árstími  Fjöldi  Ár  % af íslenskum stofni
Flórgoði Vetur 55 2005–2013 3
Margæs Far 1.431 1990–2010 5
Tjaldur Vetur 505 2017 1
Rauðbrystingur Far 18.512 1990 5
Sendlingur Vetur 520 1975 1

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fjöru- og grunnsævissvæðið Hvalfjörður.

Ógnir  

Fjaran er lítið röskuð, fyrir utan veg sem liggur um Botnsvog og þvert fyrir Brynjudalsvog. Hafnarmannvirki innan svæðisins eru í Hvítanesi, við Hvalstöðina og olíustöðina ofan við Bjarteyjarsand, auk stórskipahafnar á Grundartanga sem er við útjaðar svæðisins. Víða hefur verið byggt steinsnar frá fjörunni, t.d. við Laxárvog.

Aðgerðir til verndar

Setja ætti strangari viðmiðun um fjarlægð bygginga frá ströndu og takmarka frekari röskun á fjörunni en orðið er.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Númer
Laxárvogur og Laxá í Kjós 134
Brynjudalur, Botnsdalur, Hvalvatn og Glymur 136
Ósmelur og Hvalfjarðareyri 138
Hvalfjarðarströnd 235

Kortasjá

Hvalfjörður í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 26. febrúar 2019, uppfært 27. mars 2019.