Endurtekin ljósmyndun

Endurtekin ljósmyndun

Vöktun með endurtekinni ljósmyndun (e. photopoint monitoring) er fljótleg, ódýr og einföld leið til að skrá og vakta sýnilegar breytingar á náttúrunni. Til að vöktunin skili árangri þurfa myndir að vera teknar af sama stað, frá sama sjónarhorni, með sama fókuspunkti. Aðferðin virkar best þegar hún er notuð til stuðnings við aðrar vöktunaraðferðir sem miða að magnbundnum mælingum á breytingum í náttúrunni.

Vanda þarf val myndatökustaða. Staðurinn þarf að vera auðfundinn, aðgengi gott og forðast ber brattar brekkur. Myndatökustaður skal gefa góða yfirsýn yfir fyrirbærið sem skal vakta og ljósmyndin leggja áherslu á vöktunarmyndefnið. Það auðveldar túlkun breytinga á myndaröðum. Hafa skal í huga mögulega þróun gróðurs þannig að hann skyggi ekki á myndefnið. Gæta skal að lýsingu myndar en of dökkar myndir af landi geta torvelt greiningu. Allar ljósmyndir þurfa að hafa GPS-hnit og dagsetningu. Ljósmynd án staðsetningar er líklega ónýt.

Í dæmi um endurtekna ljósmyndun frá Geysissvæðinu, þar sem myndir eru teknar frá hringsjá ofan Geysis, má sjá hvernig gróður hefur breyst á tímabilinu en með stýringu umferðar gangandi ferðamanna hefur land gróið, þó einkum með lúpínu. Trjágróður hefur sömuleiðis hækkað og breiðst út.

Flygildi

Myndir teknar með flygildi eru notaðar til þess að útbúa myndkort af vöktunarsvæðum. Út frá þeim er hægt að afmarka og kortleggja álagssvæði gróðurs, göngustíga og hentistíga eða nýta til talninga fugla og spendýra og kortlagningar hreiðra svo eitthvað sé nefnt.

Flughæð skiptir máli fyrir upplausn gagna, það er hversu stórt svæði þekur hver myndeining, en algengt er að fljúga í 40–120 m hæð. Flughæð veltur á stærð svæðis sem á að mynda, en fjöldi fluglína og þar með flugtími og fjöldi mynda eykst með lægri flughæð.