Fuglar

Fuglar

Fuglar hafa mikið aðdráttarafl og sækja ferðamenn í að komast í návígi við þá til að skoða og ljósmynda. Þetta getur haft áhrif á afkomu fuglanna og því er mikilvægt að vakta mikilvæga fuglastofna á viðkvæmum svæðum. Þetta er gert með ýmsum aðferðum sem fela í sér talningar á fjölda einstaklinga og mælingar á ábúð, afkomu og afföllum.

Klófuglar

Fylgst er með ábúð og varpárangri klófugla (fálki, haförn, smyrill, hrafn). Þekkt óðöl eru heimsótt að minnsta kosti tvisvar á ári. Ábúð er könnuð á vorin og svo eru varppör heimsótt aftur þegar ungar eru orðnir stálpaðir og þá eru lífvænlegir ungar taldir til að meta varpárangur. Í einstökum tilfellum er þetta gert með myndavélum sem settar eru upp við hreiður en með þeim er hægt að sjá hvað það er sem er að valda truflun.

Bjargfuglar

Bjargfuglar eru taldir og greindir til tegundar á vel afmörkuðu og skilgreindu svæði. Þetta þarf að gera á nákvæmlega sama stað og á sama tíma á hverju ári. Mikilvægt er að telja bæði á svæðum sem eru mikið heimsótt af ferðamönnum og á stöðum sem fáir eða engir sækja heim til að fá samanburð. Ýmist er talið á staðnum eða það eru teknar myndir í mikilli upplausn og fuglarnir taldir af tölvuskjá. Við ungatalningar eru notaðar sjálfvirkar myndavélar sem taka myndir með reglulegu millibili. Að varpi loknu er farið í gegnum myndirnar og einstökum varppörum fylgt eftir og kannað hvort ungar komust á legg. Við talningar á lunda eru notaðar holumyndavélar. Kannaður er ákveðinn holufjöldi á hverjum stað, virkar holur taldar að vori og svo er varpárangurinn kannaður með annarri heimsókn síðar um sumarið.

Vatnafuglar

Varppör eru talin á ákveðnum svæðum þar sem yfirsýn er góð og öflug sjóntæki notuð til að hægt sé að greina tegundir með öryggi. Talningartíminn getur verið breytilegur eftir svæðum en er frá seinni hluta maí og fram í júní. Varpárangur kafanda er metinn síðsumars, þá eru allar kafendur taldar og kyn og aldur ákvarðaður til að fá fjölda unga á hvern kvenfugl. Miðað er við að þessi talning fari fram þegar flestir kafandarungar eru orðnir að minnsta kosti hálfvaxnir.

Gæsir og álftir

Fjöldi varppara er metinn með öflugum sjóntækum snemma vors frá stað þar sem yfirsýn er góð. Við grágæsatalningar er talið með því að ganga um svæðið og skrá niður öll hreiður með GPS-tæki. Sjálf gönguleiðin er líka skráð nákvæmlega með GPS-tæki til að hægt sé að meta hversu líklegt sé að öll hreiður hafi fundist. Þessi aðferð veldur meiri truflun en með henni er hægt að telja fjölda eggja í hreiðri.

Mófuglar

Tíðnimælingar eru notaðar til að fylgjast með mófuglum. Aðferðin gengur út á fasta punkta (GPS-skráðir) sem settir eru með ákveðnu millibili á tiltekinni leið, svo sem á vegi eða göngustíg. Athugandi fer á milli punkta og stoppar á hverjum þeirra í 5 mínútur og skráir niður allar tegundir sem hann verður var við á punktinum. Ekki þarf að skrá fjölda einstaklinga. Þessa talningu má framkvæma hvenær sem er á varptíma en samt er mikilvægt að hver punktur sé talinn á sama tíma ár eftir ár. Þá er einnig mikilvægt að telja eingöngu við góð skilyrði, í hægum vindi og úrkomulausu veðri. Nauðsynlegt er að miða við ákveðna fjarlægð sem fugl þarf að vera innan til að teljast með til að samræmi sé haldið milli ára.

Gerðar eru þéttleikamælingar á mófuglum. Notast er við punkta eins og í tíðnimælingunni en munurinn felst í því að fuglar af hverri tegund eru taldir. Fjarlægðarmörk eru oftast miðuð við 200 m og nauðsynlegt að hafa fjarlægðarmæli til að átta sig á mörkunum. Niðurstöður gefa meðalfjölda á punkti sem síðan er borinn saman milli ára. Nákvæman þéttleika er ekki hægt að reikna með þessari aðferð, aðeins vísitölu sem nýtt er í samanburð.

Ef fjarlægð í hvern fugl er hins vegar mæld nákvæmlega má reikna þéttleika með mun meiri nákvæmni sem krefst um leið meiri og flóknari útreikninga. Niðurstöður með þeirri aðferð geta nýst vel þegar bera á saman ólík svæði.

Afföll vegna bílaumferðar

Gengið er eða ekið hægt eftir vegi sem á að athuga og öll fuglahræ hirt. Staðsetning er skráð svo og tegund fugls, aldur og kyn ef það er þekkt. Þetta er endurtekið með jöfnu millibili yfir varptímann og því örar því betra þar sem hræætur geta verið fljótar að fjarlægja hræ við vegi. Athugun er gerð daglega ef starfsmenn fara þar um á hverjum degi, en annars til dæmis einu sinni í viku. Uppsafnaður fjöldi yfir tímann er svo borinn saman milli ára. Samhliða þessu þyrfti að fara fram athugun og skráning á fjölda bíla um viðkomandi svæði.

Heimildir

Böðvar Þórisson, Aldís E. Pálsdóttir og Tómas G. Gunnarsson 2019. Áhrif umferðar á fuglalíf. Styrkt af rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Háskóli Íslands [skoðað 31.5.2021]

Halldór W. Stefánsson og Skarphéðinn G. Þórisson 2017. Heiðagæsarannsóknir á vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar árið 2016. Náttúrustofa Austurlands, NA-170166. Nesskaupsstaður: Náttúrustofa Austurlands [skoðað 31.5.2021]

Huhta, E. og P. Sulkava 2014. The Impact of Nature-Based Tourism on Bird Communities: A Case Study in Pallas-Yllastunturi National Park. Environmental Management 53(5): 1005–1014. DOI:10.1007/s00267-014-0253-7

Kreiner, N.C., D. Malkinson, Z. Labinger og R. Shtainvarz 2013. Are birders good for birds? Bird conservation through tourism management in the Hula Valley, Israel. Tourism Management 38: 31–42. DOI: 10.1016/j.tourman.2013.01.009

Lilja Jóhannesdóttir, Kristín Hermannsdóttir og Svenja N.V. Auhage 2020. Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019. Náttúrustofa Suðausturlands, minnisblað.

Lilja Jóhannesdóttir og Kristín Hermannsdóttir 2019. Fuglalíf í Skúmey á Jökulsárlóni á varptíma 2018. Höfn: Náttúrustofa Suðausturlands [skoðað 31.5.2021]

Ólafur K. Nielsen 2019. Gyrfalcon (Falco rusticolus) studies in Northeast Iceland: progress report for 2019. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-19010. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands [skoðað 31.5.2021]

Steven, R., C. Pickering og J.G. Castley 2011. A review of the impacts of nature based recreation on birds. Journal of Environmental Management 92(10): 2287–2294. DOI: 10.1016/j.jenvman.2011.05.005

Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson 2019. Talningar á mófuglum. Náttúrufræðingurinn 89(1–2): 86–97.

Yann Kolbeinsson, Árni Einarsson, Arnþór Garðarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2019. Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum árið 2018. Náttúrustofa Norðausturlands, NNA-1902. Húsavík: Náttúrustofa Norðausturlands.

Yann Kolbeinsson, Þorkell Lindberg Þórarinsson, Cristian Gallo, Erpur Snær Hansen, Jón Einar Jónsson, Róbert Arnar Stefánsson, Sindri Gíslason og Arnþór Garðarsson 2019. Vöktun bjargfuglastofna á Íslandi 2017–2019. Náttúrustofa Norðausturlands, NNA-1906. Húsavík: Náttúrustofa Norðausturlands [skoðað 31.5.2021]