Gróður

Gróður

Gróður leikur stórt hlutverk í ásýnd náttúruverndarsvæða og upplifun fólks á þeim, jafnvel þótt verndargildi svæðanna felist ekki endilega í gróðrinum. Oft eru fyrstu merki um álag af völdum ferðamanna þau að gróður lætur á sjá og sé ekkert að gert leiðir það til gróðureyðingar og jarðvegsrofs.

Vöktun gróðurs á náttúruverndarsvæðum er tvenns konar: að vakta gróður á álagssvæðum og við göngustíga og að vakta vistgerðir og plöntutegundir sem hafa hátt verndargildi innan viðkomandi svæðis og fyrir náttúru Íslands.

Álagssvæði gróðurs og jarðvegs

Traðk veldur skemmdum á gróðurþekju og dregur úr gróðurhæð sem eru yfirleitt fyrstu merkjanlegu áhrif af álagi ferðamanna á áfangastöðum. Viðkvæmur gróður getur fljótt látið á sjá, jafnvel við lítið álag. Ef ekkert er að gert getur ástandið versnað og gildi svæðisins rýrnað. Með vöktun fæst yfirsýn yfir ástand gróðurs á völdum svæðum, sem er grunnur þess að hægt sé að sporna við gróðureyðingu. Með vöktun á umfangi og flokkun gróðurs í álagsflokka má meta þróun á álagssvæðum og hvort ákveðnum vistgerðum sé hætta búin. Vöktunin nýtist einnig til að meta árangur af mótvægisaðgerðum og fyrirbyggjandi aðgerðum til varnar gróðureyðingu.

Álagsskemmdir á gróðri og hætta á jarðvegsrofi er metin með skipulögðum hætti á vettvangi og kortlagðar á myndkort í hárri upplausn. Eftir því sem gagnaöflun vindur fram má greina þróun álagsskemmda. Á völdum svæðum eru lagðir út gróðurreitir til að greina ítarlegar áhrif ágangs á samsetningu tegundahópa í gróðurþekju.

Göngustígar

Göngustígar eru grundvöllur álagsstjórnunar á viðkomustöðum ferðamanna. Anni stígakerfi ekki álagi er hætt við gróðurskemmdum, jarðvegsrofi, skemmdum á jarðminjum eða myndun hentistíga. Það hefur svo áhrif á ásýnd viðkomustaðar og náttúruupplifun. Gerður er greinarmundur á merktum stígum og hentistígum. Merktir stígar eru skipulagðir göngustígar en þeir síðarnefndu eru göngustígar sem myndast vegna umferðar gangandi utan skipulagðra stíga. Óheft myndun hentistíga rýrir gildi svæða þar sem þeir geta valdið gróðureyðingu og jarðvegsrofi. Jafnframt er hætta á að plöntutegundir berist með göngufólki sem getur leitt til breytinga á upprunalegri tegundasamsetningu svæða.

Í verkefninu voru þróaðar aðferðir til að kortleggja og meta ástand göngustíga á kerfisbundinn hátt og gert er ráð fyrir að umsjónarmenn náttúruverndarsvæða geti nýtt þær. Aðferðirnar byggja að miklu leyti á vettvangsathugunum og kortlagningu með nákvæmum myndkortum.

Ástand göngustíga er metið á skipulögðum göngustígum með punktmælingum þar sem meðal annars er skráð breidd, dýpt, ástand yfirborðs, vistlendi og rofhætta. Þá eru skemmdir á göngustígum skráðar en þær eru til dæmis hliðarstígar, jarðvegsrof og skortur á dreni. Með vöktuninni má meta hvort stígakerfi sé í stakk búið til að standa undir umferð um svæðið. Aðferð við vöktun hentistíga gagnast til að fylgjast með breytingum á hentistígum og áhrifum hentistíga og utanvegaaksturs á gróður og jarðvegsrof. Metið er hversu stór svæði fara undir slíka stíga, hvaða vistlendum er mest hætta búin, hvað raskið er mikið og hversu mikil rofhætta er til staðar. Aðferðin og eyðublaðið sem fylgir með geta einnig nýst á þeim stöðum þar sem eru margir ómerktir stígar og óljóst hvaða stíg á að nota sem aðalstíg. Slík kortlagning getur nýst við skipulagningu svæðisins.

Vistgerðir hverasvæða

Vistgerðir jarðhitasvæða eru sjaldgæfar á lands- og heimsvísu, þær hafa takmarkaða útbreiðslu og eru umfangslitlar. Í þeim finnast sjaldgæfar plöntutegundir sem sumar hverjar finnast aðeins á jarðhitasvæðum og er verndargildi vistgerðanna hátt. Gróður jarðhitasvæða er mjög viðkvæmur fyrir traðki en hverasvæði eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna. Þá eru jarðhitavistgerðir útsettar fyrir útbreiðslu framandi plöntutegunda sem geta borist að með ferðamönnum og skotið sér niður þar sem jarðhita gætir.

Þörf er á að kortleggja útbreiðslu jarðhitavistgerða, vakta breytingar sem á þeim verða og skrá tegundir sem í þeim finnast. Vistgerðirnar eru kortlagaðar á vettvangi en stuðst er við myndkort og hitamælingar í jarðvegi. Plöntutegundir í vistgerðum eru skráðar og jarðvegshiti mældur á 10 cm dýpi. Vöktunin nýtist við að meta útbreiðslu jarðhitavistgerða og breytingar á henni, hvort sem hún tengist náttúrulegri dýnamík jarðhitasvæðanna eða er tilkomin af manna völdum.

Hérlendis er lítt þekkt hver áhrif gangandi umferðar eru á jarðhitavistgerðir. Rannsóknir erlendis frá gefa til kynna að ágangur ferðamanna breyti varmaflæði í jarðhitavistgerðum og þar með gróðurþekju og tegundasamsetningu. Það gerist því jarðvegur þjappast og yfirborðshiti lækkar. Háplöntur þola alla nafna lægri hita en mosar og getur þekja þeirra aukist þar sem traðkáhrifa gætir en mosaþekja gefur undan. Þá er rasknæmi jarðhitagróðurs hátt og talið að áhrif traðks séu oftar en ekki óafturkræf. Þar hefur jafnframt verið sýnt fram á að jarðvegshiti geti verið mjög hár á óskipulögðum hentistígum og því viss slysahætta fyrir hendi. Því er full þörf á að rannsaka áhrif traðks á jarðhitagróður hér á landi og vakta áhrif ágangs á jarðhitasvæðum.

Þar sem jarðhitavistgerðir eru yfirleitt litlar að umfangi þurfa þær sérstaka útfærslu á aðferðum við vöktun. Á völdum jarðhitasvæðum eru gerðar ítarmælingar þar sem göngustígar liggja í gegnum jarðhitavistgerðir. Gerðar eru mælingar á gróðri og jarðvegi á miðju göngustígs, á stígsbrún og 2 m frá stígsbrún. Mæld er heildarþekja gróðurs, þekja plöntuhópa og þekja æðplöntutegunda. Þá er jarðvegshiti mældur sem og þjöppun jarðvegs.

Framandi og ágengar plöntutegundir

Framandi og ágengar plöntutegundir hafa mikil áhrif á plöntusamfélög og tegundasamsetningu. Vistgerðir og plöntutegundir sem láta undan síga fyrir þannig tegundum eru fjölbreyttar og hafa margar hátt verndargildi eða mikla þýðingu fyrir dýrastofna.

Fylgst er með útbreiðslu framandi og ágengra plöntutegunda á náttúruverndarsvæðum. Vöktunin nýtist við að kortleggja útbreiðslu tegunda og þróun þeirra en einnig við að vakta árangur af upprætingu tegundanna. Helstu tegundir sem eru vaktaðar eru lúpína, skógarkerfill, spánarkerfill og risahvannir en þær hafa allar verið skilgreindar sem framandi og ágengar plöntutegundir hér á landi.

Sjaldgæfar plöntur og plöntur á válista

Sjaldgæfar plöntutegundir og tegundir á válista er vaktaðar á náttúruverndarsvæðum. Verndargildi þeirra er hátt en margar eiga undir högg að sækja vegna ágangs á búsvæði þeirra.

Fundarstaðir tegunda eru skráðir og hnitsettir. Á vettvangi er flatarmál breiðu eða fjöldi einstaklinga metinn ásamt þéttleika og ummerkjum um nýliðun.Tíðni vöktunar miðast við 5 ár en oftar sé vaxtarstöðum mögulega ógnað af álagi ferðamanna.

Heimildir

Anna Sigríður Valdimarsdóttir, Kristín Svavarsdóttir og Guðmundur Ingi Guð­brandsson 2017. Flokkun og viðgerðir á landskemmdum vegna utanvegaaksturs. Reykjavík: Landvernd og Landgræðsla ríkisins.

Ásrún Elmarsdóttir og Olga Kolbrún Vilmundardóttir 2009. Flokkun gróðurs og landgerða á háhitasvæðum Íslands. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-09013. Unnið fyrir Orkustofnun. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands [skoðað 31.1.2021]. Kortahefti: http://utgafa.ni.is/skyrslur/2009/NI-09013_kortahefti.pdf [skoðað 31.1.2021]

Barros, A., V. Aschero, A. Mazzolari, L.A. Cavieres og C.M. Pickering 2020. Going off trails: How dispersed visitor use affects alpine vegetation. Journal of Environmental Management 267. DOI: 10.1016/j.jenvman.2020.110546

Beadel S.M., J.C. McQueen, C. Bycroft, A. Simpson, S. Rate og W.B. Shaw 2020. Monitoring of Geothermal Vegetation in New Zealand, and the Effects of Geothermal Energy Extraction. World Geothermal Congress 2020, Reykjavík, Iceland, April 26-May 2, 2020. https://pangea.stanford.edu/ERE/db/WGC/Abstract.php?PaperID=4586 [skoðað 31.5.2021]

Burns, B.R., J. Ward og T.M. Downs 2013. Trampling impacts on thermotolerant vegetation of geothermal areas in New Zealand. Environmental management 52(6): 1463–1473. DOI: 10.1007/s00267-013-0187-5

Hammitt, W.E., D.N. Cole og C.A. Monz 2015. Wildland Recreation. Ecology and Management. Third Edition. John Wiley & Sons, Ltd.

Marion, J.L og Y.F. Leung 2001. Trail Resource Impacts and an Examination of Alternative Assessment Techniques. Journal of Park and Recreation Administration 19(3): 17–37.

Marion, J.L., Y.F. Leung og S. Nepal 2006. Monitoring Trail Conditions: New Methodological Considerations. Parks Stewardship Forum 23(2): 36–49. 

Marion, J. L. og Y.F. Leung 2011. Indicators and protocols for monitoring impacts of formal and informal trails in protected areas. Journal of Tourism and Leisure Studies 17(2): 215–236.

Marion, J.L, J.F. Wimpey og L.O. Park 2011. The science of trail surveys: Recreation ecology provides new tools for managing wilderness trails. Park Science 28(3).

Menja von Schmalensee 2010. Vágestir í vistkerfum – Seinni hluti. Framandi og ágengar tegundir á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 80(3–4): 84–102 [skoðað 12.3.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands. Ágengar plöntur [skoðað 12.3.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2018. Válisti æðplantna [skoðað 15.4.2020]