Nágæra (Dermestes peruvianus)

Útbreiðsla

Víða um heim. Talin upprunnin í S-Ameríku, finnst nú auk þess í N-Ameríku, vestanverðri Evrópu frá Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, Afríku og A-Asíu.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Álftanes, einnig fundin í Þingvallasveit.

Lífshættir

Nágæra er kjötæta í víðustu merkingu eins og aðrar tegundir ættkvíslarinnar Dermestes. Hún sækir í allskyns kjötmeti, þurrt og rotnandi, óunnið og unnið, matvörur framleiddar úr kjötmeti, dýrafóður, húðir, skreið, fiskimjöl og hvaðeina af slíku tagi. Þurrkaður hunda- og kattamatur er einstaklega eftirsóttur. Nágæra finnst hér einvörðungu innanhúss í upphituðu húsnæði og tengist gjarnan hunda- og kattahaldi. Bjöllurnar eru á ferli allt árið og verpa í kjötmeti þar sem það finnst aðgengilegt. Kvendýrið verpir um 12 dögum eftir að það kemur úr púpu. Lirfan vex upp með 5-6 hamskiptum og púpar sig þegar fullum þroska er náð, en tíminn sem það tekur er háður hitastigi og fæðuframboði. Það tekur bjölluna aðeins um viku að þroskast í púpunni. Nágæra er skaðvaldur í matvöru einkum fóðri gæludýra ef hún fær svigrúm til að þroskast og dafna. Grunur leikur á að bjöllurnar geti kveikt ofnæmi hjá næmum sjúklingum ef fjölgun þeirra í híbýlum nær háu stigi.

Almennt

Nágæra fannst fyrst í Reykjavík í janúar 1991. Hún fannst síðan alloft á höfuðborgarsvæðinu á árunum sem fylgdu allt fram undir aldamótin. Síðan hefur hún fundist tilfallandi árin 2007, 2010, 2011 og 2012. Aðeins einu sinni hefur tegundin fundist utan höfuðborgarsvæðis, í sumarhúsi í Þingvallasveit. Að öllum líkindum tengist það hundamat sem fólk hefur tekið með sér þangað.

Ættkvíslarheitið Dermestes er af grískum uppruna og merkir að éta skinn. Nágæra er mikið átvagl eins og nánustu ættingjarnir. Dermestes tegundir eru gjarnan notaðar til að hreinsa holdleifar af beinum og ganga bjöllurnar, bæði fullorðnar og lirfur, ötullega og hreint til þeirra verka. Nágæra er eina tegundin af þessu tagi sem hér hefur náð fótfestu. Aðrar eru tilfallandi slæðingar. Í Skotlandi er hún algengust þessara bjallna.

Dermestes tegundir eru ekki allar auðveldar í greiningu. Nágæra er ein þeirra. Hún er löng, staflaga, ávöl í báða enda, einlit svarbrún, með mjög fíngerðri gulleitri hæringu bæði að ofan og neðan og sker sig því greinilega frá skreiðargæru (Dermestes maculatus) sem er tíðust slæðinga hér á landi.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Fauna Europaea. Dermestes peruvianus. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=413501 [skoðað 23.5.2012]

Living in Glasgow. Dermestes spp. Beetles. http://www.glasgow.gov.uk/en/Residents/Environment/PublicHealth/Pestcontrol/Dermestes%20ssp%20beetles.htm [skoðað 23.5.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 23. maí 2012, 18. mars 2013

Biota

Tegund (Species)
Nágæra (Dermestes peruvianus)