Saggavinur (Corticaria serrata)

Útbreiðsla

Evrópa, Asía, N-Afríka og N-Ameríka. Nákvæmari upplýsingar liggja ekki fyrir um útbreiðslu tegundarinnar.

Ísland: Í híbýlum á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður; einnig fundinn í Grindavík, á Selfossi og Akureyri.

Lífshættir

Saggavinur lifir eingöngu í híbýlum hér á landi, þar sem raki kyndir undir vöxt myglusveppa. E.t.v. er hann of hitakær til að fá þrifist í peningshúsum. Það er annars lítt kannað. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur lifa á myglusveppum, bæði sveppþráðum og gróum. Fullorðnar bjöllur finnast allt árið um kring. Hvað almenna lífshætti varðar svipar þeim til lífshátta húsvinar (Latridius minutus).

Almennt

Saggavinur hefur e.t.v. borist til landsins á seinni hluta síðustu aldar. Hann kemur fyrst við sögu í Reykjavík í desember 1979. Síðan tekur hann að koma í leitir af og til í húsum á höfuðborgarsvæðinu, svo og í Grindavík (1990). Þó hann finnist af og til er því fjarri að hann geti talist algengur.

Saggavinur er agnarsmár eins og allir hans ættingjar, rauðbrúnn til svarbrúnn á lit. Hann líkist húsvini en er heldur grennri yfir skjaldvængina og ívið kúptari. Hálsskjöldur er verulega frábrugðinn og eru jaðrar hans einkennandi vörtóttir.

Útbreiðslukort

Heimildir

Fauna Europaea. Corticaria serrata. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=397901 [skoðað 1.6.2011]

Wikipedia. Corticaria serrata. http://no.wikipedia.org/wiki/Muggbiller [skoðað 1.6.2011]

Höfundur

Erling Ólafsson 1. júní 2011, 18. janúar 2013, 5. júlí 2017

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Bjöllur (Coleoptera)
Ætt (Family)
Húsvinarætt (Latridiidae)
Tegund (Species)
Saggavinur (Corticaria serrata)