Hvanntifa (Evacanthus interruptus)

Útbreiðsla

Evrópa töluvert norður eftir Skandinavíu, austur eftir Asíu til Kyrrahafs og Japans, N-Ameríka.

Ísland: Einn fundarstaður, Drangshlíð undir Eyjafjöllum.

Lífshættir

Á Norðurlöndum finnst hvanntifa við fjölbreytt skilyrði, í laufskógum, kjarrlendi og mólendi. Á fundarstaðnum eina hérlendis hefur hún fundist á ætihvönn (Angelica archangelica) við brekkurætur þar sem skógarkerfill (Anthriscus sylvestris) er allsráðandi. Ungviðið lifir á sveipjurtum og þroskast fyrri hluta sumars upp frá eggjum sem brúað hafa veturinn. Fullorðnum dýrum hefur verið safnað í fyrri hluta ágúst og ungviði ekki fundist með þeim á þeim tíma. Annars eru lífshættir hvanntifu hér á landi alls órannsakaðir.

Almennt

Hvanntifa fannst hér fyrst í byrjun ágúst 2008. Það var árvökull unglingspiltur á Drangshlíð undir Eyjafjöllum, Emil Sigurbjörnsson, sem tók eftir þessum óvenjulegu smádýrum í gróskumikilli ætihvönn skammt ofan við bæjarhúsin. Sveitunganum Sigurþóri Ástþórssyni, skordýraáhugamanni, var gert viðvart og fangaði hann allnokkur eintök sem hann færði Náttúrufræðistofnun til frekari rannsókna. Það var strax ljóst að um var að ræða tegund sem ekki hafði áður fundist hér á landi, en nokkur bið varð á því að hún fengist nafngreind. Aftur var hugað að hvanntifunum í byrjun ágúst 2011 og kom þá í ljós, að þær höfðu lifað af öskufallið frá eldgosinu í Eyjafjallajökli árið áður, en áhrif þess voru óvíða alvarlegri á þessum slóðum.

Fundur hvanntifu undir Eyjafjöllum árið 2008 er mjög athyglisverður, því sveitin sú hafði verið þaulkönnuð árið 1968 af reyndum sænskum skordýrafræðingum, en þeir fóru þar um til að kanna bakland Surtseyjar sem þá var nýrisin úr sæ. Hvanntifa er reyndar ekki auðfundin, en hún er felugjörn þar sem hún situr á blaðstilkum inni í hvannstóðinu. Hún fylgist grannt með þegar hennar er leitað, færir sig markvisst í var skjólmegin á stönglunum til að leynast fyrir þeim sem ónæði veldur eða stekkur örsnöggt burt, eins og tifum er tamt að gera. Ekki er gott að segja hvort um nýlegan landnema sé að ræða eða tegund eldri í hempunni. Full ástæða er til að leita hvanntifunnar markvisst í hvannstóðum víðar undir Eyjafjöllum. Ef um nýjan landnema er að ræða þá er erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig hann gæti hafa borist til landsins til að nema land undir Eyjafjöllum.

Hvanntifa er auðgreind frá öðrum tifum hér á landi. Hún er langstærst tegunda sinnar ættar hérlendis og einkennist af svörtu og gulu litmynstri sem er nokkuð breytilega fyrir komið. Afturfætur eru langir stökkfætur.

Útbreiðslukort

Heimildir

Ossiannilsson, F. 1983. The Auchenorrhyncha (Homoptera) of Fennoscandia and Denmark. Part 3: The Family Cicadellidae: Deltocephalinae, Catalogue, Literature and Index. Fauna Entomologica Scandinavica Vol. 7, part 3. Scandinavian Science Press Ltd., Kaupmannahöfn. 979 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 30. nóvember 2011.

Biota

Tegund (Species)
Hvanntifa (Evacanthus interruptus)