Holugeitungur (Vespula vulgaris)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, austur eftir Asíu norðanverðri að heimskautsbaug og til Japans, norðanverð N-Ameríka sunnan arktískra svæða, innflutt til Hawaii og Ástralíu; Hjaltlandseyjar.

Ísland: Suðvestanvert landið; höfuðborgarsvæðið, norður að Meðalfellsvatni í Kjós og austur í Fljótshlíð; Hveragerði, Selfoss, Hella, Hvolsvöllur. Einnig Akureyri.

Lífshættir

Holugeitungur heldur sig einkum í byggð, í húsagörðum og húsum. Bú holugeitunga eru oftast vel falin, í holum í jörðu, t.d. undir hellum eða á milli hleðslusteina, einnig innanhúss á háaloftum, í kjöllurum, holum veggjum og garðskúrum. Þau eru viðkvæm og standast ekki vind og hnjask. Drottningar vakna af vetrardvala upp úr miðjum maí og hefja búskap að nokkrum dögum liðnum. Fyrstu þernur fara að sjást í seinnihluta júní, karlar í lok júlí og nýjar drottningar í byrjun ágúst, en framleiðsla þeirra nær þó ekki hámarki fyrr en í september. Holugeitungar sjást fram í miðjan október, en þeir þurfa þrjá til fjóra mánuði til að ljúka búskapnum. Þernur veiða önnur smádýr sem þær mauka ofan í lirfur sínar í búunum og eru sjálfar sólgnar í orkugefandi blómasafa og hunangsdögg á laufblöðum (sætan skít blaðlúsa).

Almennt

Holugeitungur fannst fyrst með bú í Laugarneshverfi í Reykjavík 1977. Tíu árum síðar hafði hann náð að leggja undir sig allt höfuðborgarsvæðið. Honum vegnaði þó misvel til að byrja með en náði smám saman meiri stöðugleika. Vegna þess að holugeitungur er háður byggð og manngerðu umhverfi og þarf tiltölulega langan tíma til að ljúka búskapnum af og tryggja nægan fjölda drottninga fyrir næsta ár hefur hann átt erfitt með að dreifast út frá höfuðborginni. Árið 2003 var þó hafin útrás austur eftir Suðurlandi.

Ekki var búist við að holugeitungur ætti möguleika á að ná fótfestu á norðanverðu landinu. Það kom því á óvart er drottning sem rumskað hafði alltof snemma af vetrardvala slæddist inn í hús á Akureyri 10. mars 2010. Á þessum sama tíma ríkti mjög óvenjulegt ástand á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjöldi drottninga var á ferli þá dagana og slæddust inn í hús jafnan við lítinn fögnuð fólks.

Þróunin hefur verið sú að þroskatími búa er heldur að styttast og búin þar með að minnka. Stærsta bú sem hefur verið rannsakað innihélt 6.105 geitunga.

Holugeitungar eru kvikir og auðvelt er að fá þá upp á móti sér. Við búin þarf stundum lítið til að þeir snúist til varnar. Einnig eru þeir nærgöngulir á góðviðrisdögum í ágúst, sækja í mat og drykki fólks sem situr úti í görðum og leita inn um glugga á móti matarlykt sem leggur út. Ákveði þeir að ráðast til atlögu stinga þeir sér gjarnan inn undir föt, upp í ermar og ofan í hálsmál til að athafna sig. Rétt er að umgangast holugeitunga af varúð og með tilhlýðilegri virðingu.

Holugeitungur er tvílitur, svartur og gulur. Hann þekkist m.a. á því að hvergi má finna rauðan lit á afturbol, á örvarlaga svörtum bletti á gulu andliti og jafnbreiðum, gulum, hliðstæðum röndum á frambol.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Edwards, R. 1980. Social wasps. Their biology and control. Rentokil Ltd, Felcourt.398 bls.

Erling Ólafsson 1979. Um geitunga (Hymenoptera, Vespidae) og skyldar gaddvespur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 49: 27–40.

Erling Ólafsson 2002. Stungur geitunga. Náttúrufræðingurinn 70: 197–204.

Erling Ólafsson 2008. Geitungar á Íslandi. Námsgagnastofnun, Reykjavík. 24 bls.

Pennington, M., K. Osborn & D. Okill 1996. The Common Wasp Colonisation of Shetland. Á Nature in Shetland. http://www.nature-shetland.co.uk/entomology/wasps.htm [skoðað 7.8.2009].

Höfundur

Erling Ólafsson 19. mars 2010, 27. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Holugeitungur (Vespula vulgaris)