Barrvefari (Zeiraphera griseana)

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa frá N-Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, Miðausturlönd og austur eftir Asíu til Japans, N- Ameríka; Færeyjar.

Ísland: Sunnanvert landið, frá höfuðborgarsvæðinu austur í Hallormsstað og Neskaupstað og vestur að Hvanneyri.

Lífshættir

Barrvefari lifir alfarið í ræktuðum barrskógum af ýmsu tagi og í húsagörðum. Flugtími hans er frá lokum júlí og fram í miðjan október með hámark upp úr miðjum ágúst. Að öllum líkindum er eggjum orpið á trjágreinar, þar sem þau geymast yfir veturinn til að klekjast á komandi vori. Lirfurnar vaxa síðan upp fyrri hluta sumars og púpa sig í júlí. Þær nærast á nálum barrtrjáa, lerkis (Larix), grenis (Picea), furu (Pinus), einnig þins (Abies). Þær spinna spunahjúp utan um barrnálarnar og éta þær frá oddi inn að rótum. Þegar fæðan er uppurin í hjúpnum spinna þær nýjan hjúp utan um aðrar nálar. Þannig skilur hver og ein lirfa eftir sig nokkra spuna. Skemmdar samanspunnar barrnálar verða að lokum brúnar á lit og skemmdirnar koma í ljós.

Almennt

Barrvefari er nýlegur landnemi hér á landi og var hann til skamms tíma kallaður lerkivefari. Hann fannst fyrst í Hallormsstaðaskógi í ágúst 1992. Það kom þó ekki í ljós fyrr en síðar um hvaða tegund var að ræða. Tegundin varð fyrst greind þegar eintak fannst í afla ljósgildru á Tumastöðum í Fljótshlíð 1997. Tveim árum síðar uppgötvuðust fleiri eintök í gildrum á sama stað og að fáum árum liðnum var barrvefari orðinn algengasta tegund fiðrilda í skógræktinni á Tumastöðum. Fljótlega fór hann að finnast víðar og á fáeinum árum hafði hann náð að dreifast um allt sunnanvert landið.

Barrvefara hefur lukkast landnámið einstaklega vel og er með ólíkindum hversu hratt hann breiddist út og náði að byggja upp sterkan stofn. Hann hefur að öllum líkindum borist til landsins af mannavöldum með gróðurvörum.

Ekki verður fram hjá því horft að barrvefari hefur burði til að verða skaðvaldur á trjám hér á landi, en það er þá huggun harmi gegn að fæðuplönturnar eru einnig hingað komnar fyrir tilstilli okkar manna og því aðskotalífverur í íslenskri náttúru.

Barrvefari er dæmigerður vefari með mjóa, gráleita vængi hvelfda yfir bolnum. Hann er einna líkastur tígulvefara (Epinotia solandriana) og flýgur á sama tíma og hann síðsumars. Sá síðarnefndi er breytilegur á lit og og fer því fjarri að barrvefari sé auðgreindur frá algengu litaformi hans. Öruggast er að aðgreina tegundirnar með skoðun á kynfærum og á það við um bæði kyn, en það er þó vandasamt verk. Á seinni hluta flugtímans eru fiðrildin oft orðin það snjáð að hreistur vængja hefur máðst af að miklu leyti og litmynstur horfið. Þá er kynfæratékk nauðsynlegt.

Útbreiðslukort

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1979. British Tortriciod Moths. Tortricidae: Olethreutinae. British Museum (Natural History), London. 226 bls.

Fauna Europaea. Zeiraphera griseana. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=438924 [skoðað 19.10.2011]

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 19. október 2011

Biota

Tegund (Species)
Barrvefari (Zeiraphera griseana)